Hinn árlegi Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands laugardaginn 15. október. Sem fyrr er dagurinn tileinkaður tækni, vísindum, sköpun og þróun á Austurlandi og miðast dagskráin við alla aldurshópa. Ýmislegt verður í boði að þessu sinni, til dæmis verður reynt að ganga á vatni í fyrsta sinn í sögu Austurlandsfjórðungs.
Tæknidagur fjölskyldunnar hefur verið haldinn síðan 2013. Hann hefur alltaf tekist með eindæmum vel og er orðinn fastur liður í viðburðaflóru haustsins hér eystra. Áætlað er að fjöldi gesta í fyrra hafi verið um sjö hundruð manns en fjöldinn hefur farið stigvaxandi frá byrjun.
Þetta er í fjórða sinn sem Austurbrú ses. og Verkmenntaskóli Austurlands taka höndum saman og skipuleggja daginn en markmiðið með Tæknidegi fjölskyldunnar er sem fyrr að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda í okkar nærumhverfi og varpa ljósi á þau fjölbreyttu störf á þessum vettvangi sem unnin eru á svæðinu.
Um leið er sýnt hvað tækni og vísindi geta vera skemmtileg og „venjulegt“ fólk mætir á Tæknidaginn og framkvæmir skemmtilegar vísindatilraunir. Á Tæknideginum ár verður meðal annars gerð tilraun til að ganga á vatni og leyndardómurinn um þann gjörning ef til vill afhjúpaður.
Tæknidagur fjölskyldunnar 2016 verður með svipuðu sniði og áður. Fjöldi fyrirtækja á Austurlandi sýnir allskyns tæknilausnir, gestir fá að kynnast þyrluflugi í gegnum sýndarveruleikagleraugu, rafmagnsframleiðslu með vindmyllum, eldsmíði upp á gamla mátann, landmótun í sandkassa, hrálýsi úr loðnu og fleira og fleira og fleira. Þá verður Ævar vísindamaður á staðnum og sýnir börnum inn í töfraheim vísindanna.
Tæknidagur fjölskyldunnar 2016 verður 15. október, klukkan 12:00 – 16:00, í húsnæði Verkmenntaskóla Austurlands. Um leið fagnar skólinn þrjátíu ára afmæli sínu og býður upp á veitingar af því tilefni.
Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Nánari upplýsingar um Tæknidag fjölskyldunnar veitir Lilja Guðný Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá VA, í síma 477 1620 / 848 3607 / lilja@va.is