Verknámsviku lokið

Nemendurnir 54 í Vinnuskóla Fjarðabyggðar fóru ánægðir og stoltir heim eftir viku vinnu við að kynna sér verknám í VA. Þær eru líka ánægðar í lokin Unnur Ása Atladóttir og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, tveir af skipuleggjendunum með einn smíðisgripinn. Myndir frá vikunni má finna í myndasafni VA hérna á síðunni.

Reynslan af þessu framtaki er góð. Nemendurnir voru áhugasamir um verkefnin og tóku vel tilsögn. Kennarararnir voru ánægðir með hópinn og töldu að þar væri að finna marga handlagna einstaklinga. Eftir fjóra daga á verkstæðum skólans var uppskerudagur þann fimmta. Þá gerðu krakkarnir sér ýmislegt til skemmtunar og fengu góða kynningu á námsleiðum innan iðn- og tæknigeirans hjá áfangastjóra skólans og námsráðgjafa. Foreldrar komu svo í heimsókn og fengu leiðsögn barna sinna um verkstæðin og skoðuðu smiðisgripina og fengu að líta verkefnin í hárdeildinni á skjámyndum. Grill og skúffukaka í boði verkefnisins settu svo punktinn yfir i-ið í þessu frábæra verkefni.

Að lokum komu í heimsókn styrktaraðilar verkefnisins, fulltrúar sjö fyrirtækja sem starfa í Fjarðabyggð. Það verður svo vettvangur iðnaðarmanna framtíðarinnar að manna þau fyritæki og önnur sem veita bráðnauðsynlega þjónustu og stuðla að öflugu atvinnulífi til framtíðar. 

Það er enginn vafi að þarna er komið gott form á kynningu iðn- og tæknimenntunar. Og full þörf á. Tækifærin bíða þeirra sem leggja þetta nám fyrir sig hér í Fjarðabyggð sem annars staðar. Verkmenntaskóli Austurlands er tilbúinn að veita þá leiðsögn sem þarf til að ungt fólk fái notið þessara tækifæra. 

Kennarararnir sem gerðu þetta mögulegt voru: Einar Hálfdánarson, Halldór Berg, Jón Þorláksson og Svanlaug Aðalsteinsdóttir. Verkmenntaskóli Austurlands og Fjarðabyggð þakkar þeim kærlega þeirra lykilframlag til verkefnisins.