Að skrifa ritgerð

Að skrifa ritgerð

Áður en við byrjum að skrifa ritgerð er mikilvægt að glöggva sig á því hverjum ritgerðin sé ætluð. Má alls ekki hugsa sér að maður sé að skrifa ritgerð fyrir kennarann. Gott að hafa í huga að ritgerðin eigi að ná til tiltekins hóps.

Við viljum að ritgerðin hafi áhrif, lesandinn fái áhuga á efninu. Þess vegna þarf efnismeðferð að vera áhugavekjandi.

Efnisval

Við efnisval verður að hafa í huga nokkra þætti:

·         Eðli og lengd ritgerðar

·         Kunnátta og hæfileikar höfundar

·         Hversu auðvelt er að nálgast heimildir og önnur gögn um efnið.

Hægt er að skrifa mislangar ritgerðir um sama efni, með því að afmarka það á mismunandi hátt, fara mishratt yfir sögu, fara mislangt út í smáatriði o.s.frv.

Þó ber að varast að stytta og lengja ritgerðir til þess eins að koma þeim niður eða upp í ákveðinn blaðsíðufjölda.

Efnisvalið mótast líka af því hvort unnt sé að afla sæmilegra heimilda eða annarra gagna, án þess að í það fari of mikill tími miðað við eðli ritgerðar.

Rannsóknarspurning

Í upphafi ritgerðar þarf höfundur að hafa skýra sýn á efnið, og átta sig á því hvað það er sem ritgerðin á að fjalla um. Þess vegna er mikilvægt að semja rannsóknarspurningu sem er lykilspurning ritgerðarinnar og þungamiðja hennar. Rannsóknarspurning hjálpar höfundi að gera efni sitt afmarkað. 

Höfundur verður að hafa áhuga á því að svara henni og lesendur áhuga á því að vita svarið.

Áður en höfundur fer af stað með efnið er æskilegt að hann hafi eitthvert svar við rannsóknarspurningunni í huga eftir að hafa kynnt sér heimildir og gögn sem hann hefur aflað sér.

Í flestum tilvikum er nauðsynlegt að búa til millistig milli heimildanna og/eða rannsóknagagna sjálfra og ritgerðarinnar. Slíkt millistig er einhvers konar safn minnisatriða sem tekin eru upp úr heimildunum um leið og þær eru lesnar. Skrifa þá hluti sem höfundurinn vill hafa í sinni ritgerð inn í tölvu. Varast að copy-paste úr heimildum á netinu og taka ekki texta beint upp úr heimildum. Slík vinnubrögð flokkast undir ritstuld. (Sjá ritstuld)