Uppbygging ritgerðar
Ritgerðir skiptast í forsíðu, efnisyfirlit, inngang, meginmál, lokaorð, heimildaskrá og myndaskrá.
Forsíða
Forsíða ritgerðar þarf að innihalda nafn verkefnis, nafn höfundar, nafn áfanga og skóla. Höfundum er frjálst að taka fram aðrar upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar. Sjá dæmi um verkefni um uppsetningu.
Efnisyfirlit
Efnisyfirlit er listi yfir kafla verkefnis og blaðsíðutal þeirra og kemur á eftir forsíðu. Stundum eru gerðar kröfur um auða síðu á eftir forsíðu svokallað saurblað sem kemur þá á undan efnisyfirliti.
Inngangur
Í inngangi er rannsóknarspurning verksins sett fram og áætlun rithöfundar um það hvernig hann ætlar að svara henni. Viðfangsefnið er kynnt ásamt undirstöðufróðleik sem nauðsynlegur er til skilnings á efninu. – Vekja forvitni lesandans. Tengja frá almennri vitneskju til rannsóknarspurningar. Það getur verið hjálplegt að ímynda sér inngangskafla ritgerðar sem trekt (sjá mynd fyrir neðan). Þar sem umfjöllunarefnið er kynnt til leiks á almennan hátt og í víðum skilningi og svo er efnið afmarkað í lok inngangskafla meðal annars með rannsóknarspurningu og tilgangi verkefnis.
Þótt inngangurinn sé saminn í upphafi þýðir það ekki að ekki þurfi að breyta honum seinna. Nauðsynlegt að skoða hann í lokin og athuga hvort höfundi hafi tekist að skrifa um allt sem hann ætlaði sér.
Varast skal að persónugera skrif höfundar í ritgerðasmíð. Í inngangi skal ekki byrja ritgerð á: Í þessari ritgerð ætla ég…, í meginmáli byggir höfundur texta sinn á heimildum og rannsóknargögnum ásamt túlkunum á þeim og í lokaorðum þarf lesandi ekki að vita hvort höfundur hafi lært mikið af skrifunum. Í inngangi getur höfundur notast við orðalag eins og: Í þessari ritgerð verður fjallað um…. og í lokaorðum skal höfundur leggja áherslu á niðurstöður skrifa sinna og rannsókna án persónulegra skoðana höfundar.
Í stærri verkefnum er oft hafður formáli sem er ekki hluti ritgerðar, formáli er frásögn af tilurð verksins, þakkir höfundar og persónulegar hugleiðingar höfundarins. Formáli kemur yfirleitt á undan inngangi.
Meginmál
Meginmálinu er kaflaskipt þar sem höfundur svarar rannsóknarspurningu sinni. Mikilvægt er að kaflaskipta meginmálinu í þeim tilgangi að auðvelda lesandanum að fá yfirsýn yfir efnið. Lesandinn á auðveldara með að átta sig á efni sem er brotið upp í tiltölulega litlar einingar en á löngum texta án skila. Nauðsynlegt að gefa hverjum kafla lýsandi heiti svo lesandinn átti sig á innihaldi kaflanna. Varðandi uppsetningu texta meginmáls, inngangs og lokaorða skal fyrsta lína hvers kafla ekki vera inndregin. Hins vegar skal fyrsta lína eftir hver greinarskil ritgerðar vera inndregin.
Lokaorð
Lokaorðin binda endahnút á ritgerðina fyrir lesandann, draga saman niðurstöður úr henni og gefa lokasýn á efnið. Aðalatriði ritgerðarinnar eru dregin saman og meginályktun dregin upp um þær spurningar sem höfundur setti fram í inngangi. Hér bindur höfundur oft efni sitt saman með því að koma aftur að spurningunum í inngangi. Í lokaorðum byrjum við í raun öfugt við innganginn (sjá mynd fyrir neðan), þar sem aðalatriði ritgerðarinnar og niðurstöður eru dregnar saman á afmarkaðan hátt. Í lok kaflans geta vangaveltur höfundar komið fram þar sem fjallað er um efnið og efnistök á breiðari grundvelli. Þar getur höfundur jafnvel spurt sig hvað væri gagnlegt að skoða nánar.
Miklu skiptir að þar séu niðurstöður settar fram á skýran og skipulegan hátt, þannig að ljóst sé að rannsóknarspurningu verksins hafi verið svarað. Í lokaorðum á ekki að setja fram nýjar upplýsingar um efnið. Allar upplýsingar eiga að vera komnar fram í inngangi og meginmáli.
Heimildaskrá
Heimildaskrá er höfð á sér blaðsíðu, á eftir lokaorðum. Þar eru allar heimildir skráðar sem höfundur notaði í verkefni sínu. Sjá nánar í kaflanum um heimildaskráningu.
Myndaskrá
Myndaskrá er einnig á sér blaðsíðu á eftir heimildaskrá. Sjá nánar í kaflanum um myndaskráningu.