Nemendur og starfsfólk við Kröfluvirkjun
Nemendur og starfsfólk starfsbrautar brutu upp hefðbundið skólastarf í maí og tóku upp á ýmsu skemmtilegu. Nemendur fengu fræðslu í myndbandagerð hjá Sigurjóni tölvukennara en auk hans komu gestakennararnir Hlynur Sveinsson sem sýndi hópnum möguleika á notkun dróna og Ásbjörn Eðvaldsson sem er reynslumikill í myndbandsgerð. Svo kíkti hópurinn í sveitina til Dodda og Theu á Skorrastað og áttu þar frábæran dag þar sem þau fengu meðal annars að fara á hestbak.
Einnig fór Stefán Már með hópinn upp í skógrækt þar sem nemendur byrjuðu á því að bera timbur í göngustíga. Að því loknu sýndi Stefán hópnum hvernig væri hægt að grilla beint á kolum kjöt, kartöflur, súkkulaðimúffur í appelsínuberki og súkkulaðifyllta banana. Grillaðir voru sykurpúðar og einnig pylsur í deigi auk þess sem hann kenndi þeim að búa til útileguís. Stefán fór yfir mikilvæg atriði í fyrstu hjálp, fór með þeim í skátaleiki og stjórnaði söng. Mikil veðurblíða var þessa daga sem spillti ekki fyrir.
Að lokum var ferðinni svo heitið á Mývatn á lítilli rútu. Sú ferð var styrkt af heilsusjóði starfsmanna Fjarðaráls sem kallast Alcoans in motion en starfsmenn Fjarðaráls stóðu fyrir skíðaviðburði til styrktar brautinni. Einnig styrkti Tanni Travel ferðalagið. Markmið ferðarinnar var bæði að fræðast um Mývatn og nágrenni og að eiga notalega samverustundir saman. Fimm nemendur af ellefu á brautinni voru að fara að útskrifast og því var þetta einskonar útskriftarferð. Auk nemenda fóru flestir kennarar brautarinnar og Gunnar Ólafsson jarðfræðingur og kennari í VA en hann hefur farið áður í Mývatnsferðir með nemendur. Í ferðinni var Kröfluvirkjun skoðuð, Fuglasafn Sigurgeirs og Dimmuborgir auk þess sem að hópurinn baðaði sig í Jarðböðunum og snæddi kvöldmat saman og tók ferðin 10 klukkustundir í það heila. Gunnar fræddi hópinn bæði um jarðfræði og náttúru svæðisins. Svo voru þrír gítarleikarar í kennarahópnum og því var sungið í rútunni alla leiðina heim. Skólinn er þakklátur styrktaraðilum fyrir að gera svona ferðir mögulegar en í svona ferðum skapast tækifæri til að fræðast og eiga gæðastundir saman sem eru ómetanlegar.