Nemandinn í fyrirrúmi

Í starfi Verkmenntaskóla Austurlands er nemandinn í fyrirrúmi. Skólinn leggur áherslu á að veita hverjum nemenda þá þjónustu sem nauðsynleg er en þjónustuþörfin er einstaklingsbundin. Námsframboð skólans er fjölbreytt og eftir fremsta megni lögð áhersla á að boðið sé upp á góða kennslu og sem fullkomnastar námsaðstæður. Þá er hvatt til heilbrigðs félagslífs og að nemendur hafi heilbrigða lífshætti að leiðarljósi.

Vellíðan

                Skólinn hvetur nemendur til heilbrigðs  lífernis og leggur áherslu á að fræða nemendur um hollustu á öllum sviðum. Í því sambandi er öflugt forvarnarstarf mikilvægur þáttur og starfar forvarnarfulltrúi við skólann. Þá tryggir skólinn aðgengi nemenda að aðstöðu til líkamsræktar og íþróttaiðkunar. Stefnt er að því að vinnuálag á nemendur sé hóflegt og þeim boðið með reglubundnum hætti  upp á námskeið til að vinna gegn kvíða og streitu.

Umsjónarkennarar og stoðkerfi

                Umsjónarkennarar fylgjast með störfum og námsárangri nemenda og eru í tengslum við foreldra eða forráðamenn  ólögráða nemenda þegar ástæða þykir til. Þá eru umsjónarkennarar einnig í góðum tengslum við kennara skólans og fá þannig yfirsýn yfir styrkleika og veikleika hvers nemanda. Kennararnir bjóða einnig upp á vikulegan viðtalstíma.  Í skólanum er boðið upp á fjölbreytta stoðþjónustu sem getur til dæmis falist í aðstoð við nám í einstakri námsgrein, leiðbeiningum í tengslum við vinnubrögð eða andlega erfiðleika. Námsráðgjafi skólans sinnir mikilvægu hlutverki á þessu sviði en að auki nýtur skólinn þjónustu sálfræðings Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Þá starfar hjúkrunarfræðingur við skólann sem nemendur geta ávallt leitað til.

Félagslíf

                Skólinn styður dyggilega við bakið á félagslífi nemenda. Lögð er áhersla á að skapa nemendafélaginu, NIVA, góðar starfsaðstæður og hvetja nemendur til virkrar þátttöku í félagsstarfi. Eins er kappkostað að veita þjálfun í félagsstörfum og aðstoða nemendur við að hrinda viðamiklum verkefnum í framkvæmd. Leikfélag nemenda, Djúpið, gegnir mikilvægu hlutverki í félagsstarfinu og eru leiklistarnámskeið haldin reglulega í tengslum við starfsemi þess. Þá er mikilvægt að foreldraráð skólans sé stutt og hvatt til virkrar starfsemi þess. Foreldrafélagið kýs foreldraráð en allir forráðamenn nemenda yngri en 18 ára eru félagar í Foreldrafélaginu.

Ástundun

                Ávallt er fylgst með ástundun nemenda í námi. Mætingakerfi er ávallt í gildi og eru mætingareglur kynntar nemendum ítarlega. Mætingar eru teknar saman fjórum sinnum á önn og er foreldrum eða forráðamönnum ólögráða nemenda  tilkynnt ef þeim er ábótavant.

Mat

        Til að meta stöðu einstakra þátta er varða nemandann er brýnt að framkvæma eftirfarandi:

  • Fylgjast með brottfalli úr námi og úr einstökum áföngum
  • Fylgjast með ástundun nemenda, mætingu í kennslustundir og stundvísi
  • Framkvæma viðhorfskannanir á meðal nemenda um einstaka námsáfanga og almenna líðan í skólanum
  • Halda reglulega kynningarfundi með foreldrum og forráðamönnum nýnema
  • Fylgjast með veikindaforföllum nemenda og þörf þeirra fyrir sálfræðilega aðstoð
  • Fylgjast með virkri þátttöku nemenda í félagsstarfi
  • Fylgjast með þátttöku nemenda í einstökum verkefnum sem skólinn tekur þátt í eins og til dæmis Heilsueflandi framhaldsskóli