Heimavist

Heimavist er rekin við Verkmenntaskóla Austurlands og er hún ætluð nemendum á aldrinum 16 – 20 ára sem stunda fullt staðnám við skólann. Nemendur sem stunda starfsnám í staðnámi geta sótt um að vera lengur á heimavist til að ljúka námi sínu.

Heimavistin er staðsett við Nesgötu 40 í Neskaupstað.

Á vistinni eru 29 tveggja manna herbergi, hvert með sér baði. Gott aðgengi er fyrir einstaklinga með fötlun og eitt herbergi er sérútbúið með þarfir einstaklinga með fötlun í huga. Á hverjum herbergisgangi er eldhúskrókur með örbylgjuofni og ísskáp. Í sameiginlegu rými er setustofa, sjónvarp, poolborð, borðtennisborð, matsalur og rúmgott anddyri.

Mötuneyti

Á heimavistinni er glæsilegur matsalur með einstöku útsýni og er þar morgunmatur fyrir heimavistarbúa. Hádegisverður er í nýjum matsal í bóknámshúsi skólans og kvöldmatur er á heimavistinni. Morgun- og hádegismatur er í boði fyrir vistarbúa mánudaga til föstudaga og kvöldmatur mánudaga til fimmtudaga. Allir vistarbúar eru sjálfkrafa skráðir í fullt fæði í mötuneyti þegar óskað er eftir dvöl á heimavist og er það ekki valkvætt, þar sem ekki er eldunaraðstaða í boði fyrir nemendur.

  • Morgunverður: 7:45 - 10:00
  • Hádegisverður: 12:00- 12:30
  • Kvöldverður: 18:00 - 19:00

Gjaldskrá heimavistar og mötuneytis

Mötuneyti 2024 - 2025*

 
Stakar máltíðir í hádegi 1.650.-
10 miða kort í hádegisverð - stakar máltíðir 15.200.-
   
Heimavistarnemar (hádegis- og kvöldmatur)  241.000.-   Rukkað af Hildibrand
- Hægt að greiða í fjórum jöfnum greiðslum  
Heimavistanemar (morgunmatur) 37.000.-     Rukkað af VA
Ýmsar gagnlegar upplýsingar varðandi mötuneyti má finna hér.  
   

* Mötuneytisverð er endurskoðað fyrir hvert skólaár með tilliti til vísitölubreytinga. Endurskoðun fyrir skólaárið 2024 - 2025 fór fram 12.08.2024.

 

Heimavist 2024 - 2025

 
Leiga* pr. einstakling í tveggja manna herbergi - verð pr. mánuð: 20.000.-
Leiga* pr. einstakling í eins manns herbergi - verð pr. mánuð: 28.000.-
Tryggingargjald - verð fyrir skólaárið (endurgreitt ef við á í lok annar/árs) 10.000.-
* Ath. rukkuð er leiga fyrir 4 mánuði á önn  

 

 

Sýnidæmi um kostnað við dvöl á heimavist eina önn

 
Leiguverð pr. einstakling á önn í 2ja manna herbergi 80.000
Innifalið: Net og þvottahús  
Mötuneyti 262.000
Tryggingargjald 10.000
Kostnaður samtals
352.000
   
Endurgreiðslur, styrkir, stuðningur  
Jöfnunarstyrkur* 195.000
Tryggingargjald (endurgreitt sé herbergi skilað hreinu og allt heilt) 10.000
Húsnæðisstuðningur** (hér m.v. 50% af húsaleigu) 40.000
   
Endurgreiðsla samtals
245.000

Samtals nettó greiðsla á einni önn:

107.000

   

Húsnæðisstuðningur**

  • Foreldrar nemenda á aldrinum 15 - 17 ára geta sótt um sérstakan húsnæðisstuðning til síns sveitarfélags vegna búsetu á heimavist. Stuðningurinn er óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila og nemur allt að 75% af leigufjárhæð.
    • Fjarðabyggð (50% af leigufjárhæð, greitt eftir á)
    • Fljótsdalshérað (stuðningur skal ekki fara yfir 50% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar)
    • Varðandi önnur sveitarfélög er viðkomandi bent á að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins og fá upplýsingar um hlutfall
  • Nemendur sem eru 18 ára og eldri geta sótt um húsnæðisbætur - sjá hér
 

 

Jöfnunarstyrkur* frá Menntasjóði námsmanna

Jöfnunarstyrkur (áður dreifbýlisstyrkur) er námsstyrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu.

Á námsárinu 2023 - 2024 var upphæð dvalarstyrks 195.000 kr. og akstursstyrks 115.000 kr. á önn.

Styrkirnir eru greiddir út eftir hverja önn í janúar og júní þegar skólarnir hafa staðfest námsárangur annarinnar.
Styrkurinn er greiddur inn á bankareikning námsmanns sem verður að vera á hans nafni.

Fjarnám er ekki styrkhæft. Dreifnám er aðeins styrkhæft ef nemendur þurfa að koma í skólann a.m.k. 50% af dagafjölda nemenda sem stunda dagsskóla. Athugið að stunda þarf a.m.k. 20 eininga nám frá upphafi til loka annar til að geta fengið jöfnunarstyrk.

Hér má lesa nánar um jöfnunarstyrk.

 

Heimavistarreglur

Ákveðnar umgengnisreglur eru viðhafðar og kröfur gerðar til nemenda um tillitssemi og góða umgengni. 

Hér má lesa heimavistarreglurnar

1. gr

Heimavistin er heimili nemenda og skulu þeir njóta heimilisfriðar að fullu. Markmið heimavistarreglna er að tryggja hvíldar- og vinnufrið vistarbúa og vera til leiðsagnar ef heimilisfriðnum er stefnt í hættu.

2.gr

Skólameistari fer með yfirstjórn heimavistar og heimavistarstjóri í umboði hans.

3.gr

Heimavistarstjórn skipa: skólameistari, heimavistarstjóri og vistarráð skipað tveimur til þremur fulltrúum nemenda sem kosnir eru af íbúum heimavistar í upphafi skólaárs. Hlutverk vistarráðs er að vera tengiliður nemenda við heimavistarstjórn og funda um hagsmunamál nemenda. Einnig að skipuleggja félagslíf meðal heimavistaríbúa. Heimavistarstjórn kemur saman eigi sjaldnar en tvisvar á önn.

4.gr

Ákvörðun um dvöl á heimavist jafngildir samningi við yfirvöld skólans um góða ástundun náms (skólasókn og verkefnaskil/vinnuframlag) og góða umgengni.

5.gr

Eftir kl. 19.00 á að vera friður og næði til heimanáms. Því skulu heimavistarbúar leitast við að valda ekki ónæði með óþarfa hávaða og ofnotkun hljómflutningstækja, tölvu eða sjónvarps.

6.gr

Heimavistarbúar annast ræstingu á herbergjum sínum, sturtuklefa og salerni. Herbergin skulu þrifin minnst einu sinni í viku. Þar að auki taka vistarbúar þátt í ræstingu á sameign heimavistar eftir nánari ákvörðun heimavistarstjóra og skólameistara. Heimavistarstjóri getur ákveðið nánar um frekari ræstingu á heimavistarhúsnæðinu á kostnað nemenda ef ekki er farið að þessari reglu.

7.gr

Skólameistari og heimavistarstjóri hafa aðgang að herbergjum vistarbúa á öllum tímum til eftirlits.

8.gr

Heimavistinni er læst kl. 24.00 alla daga. Ætlast er til að vistarbúar komi í hús fyrir lokunartíma. Ætli nemandi að vera fjarverandi um nætursakir skal hann tilkynna það heimavistarstjóra. Ekki er ætlast til að nemendur dvelji yfir helgi á heimavistinni, nema ef veður eða fjarlægðir hamla ferðum.

9.gr

Gestir á heimavist skulu fara eftir þessum umgengnisreglum (og er hver vistarbúi ábyrgur fyrir gesti sínum). Engar heimsóknir eru leyfðar eftir kl. 23:00. Leyfi til að hafa næturgesti er háð samþykki heimavistarstjóra og foreldra /forráðamanna nemanda undir 18 ára aldri og skal sækja um það til skólameistara með tveggja daga fyrirvara. Slík leyfi eru einungis veitt ef sérstakt tilefni er til, s.s. vegna atburða á vegum skólans. Íbúar í Neskaupstað fá ekki leyfi til gistingar á heimavist. Skólameistari getur þó heimilað undanþágu frá þessu ákvæði. Nemendur á grunnskólaaldri hafa ekki heimild til að vera á heimavist eftir kl. 21:00 nema með sérstöku leyfi heimavistarstjóra eða skólameistara.

10.gr

Hver nemandi skal skila herbergi í sama horfi við annarlok og hann tók við því í upphafi. Nemanda er óheimilt að yfirgefa heimavistina í lok annar án þess að vistarstjóri hafi yfirfarið herbergið. Ef skemmdir verða á herbergi og/eða sameign nemenda eru þeir bótaskyldir og skulu þeir greiða tryggingargjald að upphæð kr. 10.000.- Nemandi fær trygginguna endurgreidda í annarlok ef umgengni og umhirða er hnökralaus (sbr. 5.gr.).

11.gr.

Skemmdir á húsum eða munum heimavistar skal tilkynna vistarráði nemenda sem kemur upplýsingum til heimavistarstjóra. Verði nemandi uppvís að þjófnaði á eignum og/eða munum vistarbúa eða starfsmanna, ber að vísa honum til skólameistara.

12.gr.

Reykingar eða tóbaksnotkun eru ekki heimilaðar í húsakynnum né á lóð heimavistar samkvæmt tóbaksvarnarlögum frá 1996. Sama gildir um notkun á hvers kyns rafsígarettum.

13.gr

Neysla og geymsla áfengis og allt ónæði af völdum þess er óheimil í húsakynnum og á lóð heimavistar. Sama gildir um önnur vímuefni. Brot á þessari reglu geta varðað brottrekstri af heimavist samkv. húsaleigusamningum. Verði nemandi uppvís af að vera með áfengi á vistinni, er því umsvifalaust hellt niður. Önnur vímuefni eru gerð upptæk og málinu vísað til lögreglu. Fíkniefnahundur er notaður til reglubundins eftirlits á vistinni.

14.gr

Bifreiðum skal leggja í merkt bílastæði við heimavistina. Óheimilt er að leggja ökutæki beint framan við anddyri heimavistar eða leggja þeim upp á gangstétt eða grasflöt utan bifreiðastæða. Heimilt er að fjarlægja bíl sem lagt er ólöglega.

15.gr

Brot á heimavistarreglum varða áminningu. Hafi vistarbúi fengið fleiri en tvær áminningar telst það brottrekstrarsök af heimavist. Slík mál eru í höndum skólameistara.

Á heimavistinni fer fram rafræn vöktun með eftirlitsmyndavélum í öryggis- og eignavörsluskyni. Um er að ræða myndbandsupptökur án hljóðs. Myndavélarnar eru staðsettar í sameiginlegum rýmum, s.s. í anddyrum, miðrýmum og göngum.

Hér má lesa nánar um verklagsreglur skólans um rafræna vöktun

 

Verklagsreglur Verkmenntaskóla Austurlands um rafræna vöktun

Verkmenntaskóli Austurlands hefur sett sér eftirfarandi reglur um rafræna vöktun öryggismyndavéla. Verklagsreglurnar byggja á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (90/2018), reglum Persónuverndar um rafræna vöktun (50/2023) og lögum um framhaldsskóla (92/2008).

  1. gr.

Umfang vöktunar

Á heimavist Verkmenntaskóla Austurlands (VA) fer fram rafræn vöktun með eftirlitsmyndavélum í öryggis- og eignavörsluskyni. Myndavélarnar eru staðsettar í sameiginlegum rýmum, s.s. í anddyrum, miðrýmum og göngum. Alls eru myndavélarnar á heimavistinni 12 talsins.

Á þeim stöðum sem vöktun fer fram er hún gefin skýrt til kynna með merkingum. Einnig eru merkingar til staðar við útidyr, sem kunngjöra að húsnæðið sé vaktað með myndavélum.

  1. gr.

Kynning vöktunar

Vöktunin og verklagsreglur þessar eru kynntar þeim sem vöktun hefur áhrif á. Á fundi með skólameistara og umsjónarmanni í upphafi hverrar annar fá heimavistarbúar (og forsjáraðilar) fræðslu um þá rafrænu vöktun sem fram fer á heimavistinni. Í fræðslunni er sérstaklega fjallað um eftirfarandi:

  • Hver er tilgangur vöktunarinnar
  • Hver hefur eða kann að fá aðgang að upplýsingum sem safnast
  • Hversu lengi upplýsingar eru varðveittar
  • Hvaða búnaður er notaður (myndupptökur án hljóðs)
  • Rétt íbúa til að andmæla vöktun á herbergisgangi sínum og hverjar geti verið afleiðingar þess
  • Rétt þeirra sem sæta vöktun til að fá að vita hvaða upplýsingar verða til um hann og til að fá upplýsingar leiðréttar eða þeim eytt

Einnig er vakin sérstök athygli á vöktuninni í leigusamningum sem heimavistarbúar (og forráðaaðilar) og skólameistari undirrita við upphaf dvalar á heimavist á önn hverri sem og í upplýsingum um heimavistina á heimasíðu skólans.

  1. gr.

Tilgangur og heimild

Tilgangur vöktunarinnar er að gæta öryggis íbúa á heimavist sem og að gæta eigna íbúa og skólans, sér í lagi þegar gæslufólk er ekki í húsakynnum. Er reglunum ætlað að tryggja meðalhóf, virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og ganga ekki lengra en nauðsyn ber til.

Samkvæmt 33. grein laga um framhaldsskóla skal framhaldsskóli í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis. Byggir vinnsla persónuupplýsinganna á eftirfarandi heimildum skv. 9. grein laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga:

  • Að vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila.
  • Að vinnslan sé nauðsynleg til að vernda brýna hagsmuni hins skráða eða annars einstaklings.
  1. gr.

Meginreglur sem gilda um rafræna vöktun

Persónuupplýsingar sem verða til við rafræna vöktun skal fara með í samræmi við 8. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 en þar koma fram eftirfarandi meginreglur um vinnslu persónuupplýsinga:

  • Að þær séu unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæum hætti gagnvart hinum skráða.
  • Að þær séu fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi.
  • Að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.
  • Að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum.
  • Að þær séu varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða einstaklinga lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu.
  • Að þær séu unnar með þeim hætti að viðeigandi öryggi persónuupplýsinganna sé tryggt.
  1. gr.

Skoðun persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun

Persónuupplýsingarnar sem til verða við vöktunina eru aðeins notaðar í þágu tilgangs með söfnun þeirra og aðeins að því marki sem þess gerist þörf í þágu tilgangsins.

Eftirfarandi aðilar hafa heimild til að skoða myndefni úr eftirlitsmyndavélum; Skólameistari, aðstoðarskólameistari og kerfisstjóri VA.
Skólameistarar hafa heimild til ákveða að upplýsingarnar sem verða til við vöktunina skuli skoðaðar en myndefni úr eftirlitsmyndavél er aðgangsstýrt með aðgangi sem skólameistari hefur einn aðgang að.

  1. gr.

Varðveisla persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun

Upplýsingarnar sem verða til við vöktunina eru ekki varðveittar lengur en í 30 daga nema lög heimili og dómsúrskurður liggi fyrir.

  1. gr.

Afhending persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun

Persónuupplýsingarnar sem til verða við vöktunina eru ekki afhentar öðrum nema með samþykki hins skráða eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar. Þó er heimilt að afhenda lögreglu upplýsingar um slys eða meintan refsiverðan verknað.                 

8. gr. 

Beiðni um leit í upptökum eftirlitsmyndavélakerfis

Beiðni um leit í upptökum eftirlitsmyndavéla skal komið á framfæri við skólameistara, sem eftir tilvikum skráir hana í málaskrá skólans. Tilgreina skal tilefni og tímamörk umbeðinnar leitar á rafrænu eyðublaði sem finna má hér. Skólameistarar skulu heimila skoðun jafn fljótt og auðið er og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku slíkrar beiðni.

Þetta á þó ekki við ef réttur þess sem sætt hefur vökt­un­inni til að fá að skoða gögnin þykir eiga að víkja að nokkru eða öllu fyrir hags­munum annarra en hans eigin. Ef óljóst er hvort verða á við beiðni um skoðun eða hlustun er efni sent til lög­reglu eða Per­sónu­verndar til skoðunar.

9. gr.

Andmæli við framkvæmd vöktunar

Komi fram athugasemdir eða andmæli við framkvæmd vöktunar og/eða ábendingar um að hún uppfylli ekki þær kröfur sem settar eru í reglum þessum eða lögum skal hafa samband við persónuverndarfulltrúa VA með því að senda tölvupóst á netfangið petralind@va.is eða hringja í síma 477-1620.

 

Samþykkt á fundi persónuverndarteymis VA,

Neskaupstað 14. desember 2020

*Breytt í ágúst 2024

Húsaleigusamningar

Húsaleigusamningar eru gerðir við alla nemendur við upphaf dvalar á heimavist. Forráðamenn nemenda yngri en 18 ára skrifa einnig undir húsaleigusamninginn og því er mikilvægt að forráðamenn fylgi nemendum á vistina þegar dvöl hefst. Sé ekki hægt að koma því við er mikilvægt að ganga frá samningi áður en dvöl hefst.

Opnunartími heimavistar

  • Heimavistin er opnuð kl. 16:00 á sunnudögum
  • Heimavistinni er lokað kl. 17:00 á föstudögum
  • Lokað er um helgar

Við upphaf annar er heimavistin opnuð seinnipart dags, daginn áður en kennsla hefst.

Tengiliðir á heimavist

Nemendaumsjón / aðstoð á opnunartíma heimavistar:
  • 8:00 - 17:00 Jóhann Tryggvason, húsvörður - s. 866 2230
  • 17:00 - 08:00 Berglind Björk Arnfinnsdóttir - s. 845 1808
Aðrir tengiliðir:
  • Skólameistari:
    • Birgir Jónsson - birgir@va.is - s. 868-7556
  • Matfélagið
    • Sirrý Valdimarsdóttir - hildibrand@hildibrand.com - s. 477-1950

Uppsögn leigusamnings og mötuneytis

Kjósi vistarbúi að ljúka dvöl á heimavist áður en yfirstandandi önn lýkur þarf hann að segja upp húsaleigu og er það gert í tölvupósti til skólameistara (ef vistarbúi er yngri en 18 ára þarf uppsögnin að koma frá forsjáraðila). Einnig þarf viðkomandi að segja upp mötuneytisáskrift sinni til hildibrand@hildibrand.com.