Hlutverk Verkmenntaskóla Austurlands (VA) er að undirbúa nemendur fyrir störf á almennum vinnnumarkaði og/eða frekara nám. Vegna aukinnar alþjóðavæðingar er afar mikilvægt að nemendur séu ekki aðeins undirbúnir fyrir frekara nám og/eða starf á Íslandi heldur einnig á alþjóðlegum markaði. Ungmenni í dag þurfa að átta sig á að Ísland er ekki eini starfsvettvangurinn sem þeim býðst – öll Evrópa er undir. Framtíðin kallar á sveigjanleika og samstarfshæfni og vegna alþjóðavæðingar er góð tungumálakunnátta orðin lykilhæfni.
Þessi þróun setur aukar kröfur á VA sem menntastofnun sem í dag þarf að þjálfa nemendur til starfa í síbreytilegu og alþjóðlegu umhverfi 21. aldarinnar.
Mikill áhugi er innan skólans fyrir því að bæta alþjóðlega færni nemenda og starfsmanna og að öðlast sterka alþjóðlega tengingu. Þess vegna liggur metnaður skólans m.a. í að nemendur og starfsfólk kynnist hnattrænu viðhorfi og alþjóðlegum valkostum og kröfum. Þetta getur falist í tækifærum til starfsnáms erlendis, námsferðum, nemendaskiptum, kennurum/starfsfólki með alþjóðlegan bakgrunn, þjálfun í alþjóðlegri færni og tungumálakunnáttu með sérstakri áherslu á ensku. Þetta gerir einnig kröfur til allra kennara skólans um enskukunnáttu og hæfni til að skynja og skilja menningu annarra þjóða.
VA stefnir á að undirbúa nemendur sína fyrir þetta alþjóðlega umhverfi m.a. í gegnum erlendar nám- og starfsferðir og með móttöku erlenda nemenda og kennara en með því móti öðlast nemendurnir hæfni sem sífellt verður mikilvægari. Þessi hæfni felst m.a. í
- þekkingu á framandi og ólíkri vinnumenningu.
- tungumálakunnáttu í hagnýtu samhengi.
- því að átta sig á muninum á eigin skóla og öðrum skólum, þar á meðal ólíkum námsleiðum.
- að geta borið erlendar kröfur og hefðir í iðn- og verkgreinum við íslenskar.
- að þróa persónulega færni og læra að skuldbinda sig í framandi umhverfi.
- fjölmenningarlegri hæfni, getu til að setja sig í spor annarra og skilningi á eigin menningu út frá sjónarhorni annarra.
Allt leiðir þetta til fjölmenningarlegrar þekkingar nemenda, þar sem þeir verða færari um að taka þátt í síbreytilegum vinnumarkaði nútímans.
Með þátttöku í erlendu samstarfi öðlast starfsfólk alþjóðlega reynslu og aflar sér færni og þekkingar sem nýtist til að nútímavæða og auka alþjóðlega vídd í skólastarfinu.
Umsjónarmaður erlendra samskipta (e. international coordinator):
Petra Lind Sigurðardóttir – petralind@va.is
Umsjónarmaður erlendra samskipta (e. international coordinator) í Verkmenntaskóla Austurlands hefur umsjón með þeim erlendu samstarfsverkefnum sem skólinn stendur að á hverjum tíma.