Viðbrögð við áföllum

 

1. Ábyrgð

Ábyrgð liggur hjá skólameistara og áfallateymi skólans.


2. Framkvæmd

2.0 Inngangur

Áfallateymi fer með verkstjórn þegar válegir atburðir gerast sem snerta nemendur og starfsmenn skólans. Hlutverk áfallarteymis er að virkja áfallaáætlun skólans svo bregðast megi fumlaust og ákveðið við, þegar áföll hafa orðið, s.s. bráð veikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu og/eða sorgarviðbrögð. Áætlunin felur í sér hvað skuli gera, í hvaða röð og hver sinni hvaða hlutverki.

Dæmi um áföll eru:

  • Slys/alvarleg veikindi nemanda/starfsmanns í skóla/utan skóla.
  • Andlát meðal starfsfólks, maka starfsfólks, barna starfsfólks, nemenda, foreldra nemenda og/eða systkina.
  • Aðrir ógnvekjandi atburðir sem snerta hóp starfsmanna eða nemenda s.s. ef eldur kemur upp í húsnæði skólans, náttúruhamfarir eða stórslys.

Skólameistari fer með stjórn teymisins og kallar það saman þegar þörf krefur. Áfallateymi fer með verkstjórn þegar válegir atburðir gerast, kynnir sér skyndihjálp og sálræna skyndihjálp og miðlar þeirri þekkingu til annarra starfsmanna skólans.


2.1 Fyrstu viðbrögð

1. Sá sem fyrstur fær upplýsingar um dauðsfall eða slys, kemur boðum til skólameistara sem strax grípur til viðeigandi ráðstafana.

2. Á fyrsta fundur áfallateymis eru staðreyndir málsins kynntar, verkum skipt og fyrstu aðgerðir skólans ákveðnar. Óvissa um það sem gerst hefur eykur á óöryggið og streituna. Það er afar mikilvægt að upplýsingastreymi til og frá skólanum sé gott.

3. Skólameistari tilkynnir starfsmönnum sem allra fyrst hvað gerst hefur og hvernig skólinn hyggst taka á málum. Kanna þarf, ef kostur er, hvort einhverjir í hópnum eru nánir viðkomandi. Ef svo vill til þurfa þeir að fá fregnina einslega.

  • Bæklingur Rauða krossins um sálrænan stuðning afhentur starfsfólki.

4. Nemendum skólans sagt frá atburðinum á sal eða í skólastofum, eftir atvikum. Æskilegt er að leyfa nemendum að ræða um atburðinn og líðan sína.

  • Bæklingur Rauða krossins um sálrænan stuðning afhentur nemendum.

5. Skólameistari hefur samband við nánustu aðstandendur ef um slys er að ræða.

  • Sé um dauðsfall að ræða í starfi á vegum skólans hefur skólameistari samband við prest og lögreglu til að færa aðstandendum andlátsfregn.
  • Húsvörður flaggar í hálfa stöng að tilkynningu lokinni.
  • Ritari kveikir á kerti.

6. Í lok skóladagsins koma starfsmenn skólans saman með áfallateymi. Farið er yfir nöfn þeirra sem tengjast atburðinum s.s. ættingja og vini. Aðgerðir næstu daga ræddar. Meta skal þörf á viðrun (Viðrun felst í því að sá sem lendir í áfalli hafi aðstöðu til að viðra tilfinningar sínar. Viðrun fer fram í óformlegum hópum og um það sjá fagaðilar).

7. Samskipti við lögreglu og fjölmiðla eru í höndum skólameistara.

 


2.2 Viðbrögð við mismunandi áföllum

2.2.1 Slys/alvarleg veikindi

1. Kennurum og nemendum skal greint frá því ef einhver úr þeirra hópi hefur lent í alvarlegu slysi/veikindum og þarf að vera lengi fjarverandi af þeim sökum.

2. Kennurum og samnemendum skal greint frá alvarlegu slysi/veikindum í fjölskyldu nemanda. Skal það gert í samráði við nemandann og fjölskyldu hans.

3. Verði nemandi fyrir slysi í skólanum eða í ferð á vegum skólans, skal haft samband við lögreglu og láta skólameistara vita. Skólameistari lætur aðstandendur vita svo fljótt sem auðið er.

4. Verði starfsmaður fyrir slysi á skólatíma hefur skólameistari samband við aðstandendur.

5. Skólameistari skal gæta þess eins og mögulegt er, að enginn fari heim með rangar upplýsingar ef slys hefur orðið í skólanum/í skólaferð.

6. Skólameistari er eini tengiliður skólans við fjölmiðla um atburði sem áfallateymi fjallar um. 


2.2.2 Alvarleg slys/dauðsfall í skóla

1. Sá starfsmaður, sem kemur fyrstur að slysi/dauðsfalli í skóla, hringir í 112 og síðan í skólameistara og tilkynnir um slysið/dauðsfallið. Starfsmaðurinn reynir að halda nemendum frá vettvangi og veitir þá aðstoð sem þörf er á. Mikilvægt er að hafa stjórnina á vettvangi og að enginn yfirgefi vettvang í uppnámi.

2. Skólameistari leitar staðfestingar á að hringt hafi verið á sjúkrabíl og lögreglu eða vinnueftirlit eftir atvikum.

3. Skólameistari biður viðkomandi starfsmann að skrá niður vitni að slysinu/dauðsfallinu.

4. Skólameistari lætur starfsfólk vita. Aðrar aðgerðir sbr. lið fjögur í kaflanum um fyrstu viðbrögð.

5. Við slys skal starfsmaður frá skólanum fylgja þeim slasaða á sjúkrahúsið og vera þar með honum þar til foreldrar/forráðamenn/aðstandendur koma á staðinn.

6. Eigi andlát sér stað í skólanum þarf að kalla til lögreglu og prest sem sjá um að aðstandendur fái réttar upplýsingar um málið.

7. Sýni fjölmiðlar áhuga er skólameistari eini tengiliður skólans við þá. Allir aðrir skulu vísa á hann varðandi upplýsingar.



2.2.3 Andlát starfsmanns

1. Fengin er staðfesting á andláti og leitað réttra upplýsinga um aðdraganda þess.

2. Tala skal við skyldmenni og vini hins látna innan skólans áður en öðrum er tilkynnt um andlátið.

3. Starfsfólki skólans skal tilkynnt um andlátið eins fljótt og kostur er og einnig um tildrög þess.

4. Skólameistari kallar nemendur saman og tilkynnir þeim um andlátið.

5. Flaggað skal í hálfa stöng þann dag sem andlátsfregn berst og einnig þann dag sem jarðað er, en reynt að halda uppi eins eðlilegu skólastarfi og unnt er.

6. Samband er haft við aðstandendur, til dæmis með heimsókn og/eða blómasendingu.

7. Fulltrúar skólans bjóði aðstoð við útfararundirbúning og útför.

8. Samstarfsmenn sjái til þess að minningargrein eða kveðja birtist í blaði.

9. Kennsla felld niður útfarardag samkvæmt nánari ákvörðun.



2.2.4 Andlát nemanda

1. Fengin er staðfesting á andláti og leitað réttra upplýsinga um aðdraganda þess.

2. Tala skal við skyldmenni og vini hins látna innan skólans áður en öðrum er tilkynnt um andlátið.

3. Kennurum og öðru starfsfólki skal tilkynnt um andlátið eins fljótt og kostur er og einnig um aðdraganda þess.

4. Skólameistari kallar nemendur saman og tilkynnir þeim um andlátið.

5. Flaggað skal í hálfa stöng þann dag sem andlátsfregn berst og einnig þann dag sem jarðað er, en reynt að halda uppi eins eðlilegu skólastarfi og unnt er.

6. Skólameistari/kennari/aðrir fari heim til nemanda ef kostur er.

7. Skólameistari sendi samúðarkveðjur til fjölskyldu hins látna í nafni skólans.


2.2.5 Andlát/alvarlegt slys nákomins ættingja nemenda (foreldris/systkinis)

1. Skólameistari tilkynnir starfsmönnum um atburðinn.

2. Náms- og starfsráðgjafi/skólastjórnendur/umsjónarkennari hafi samband við hlutaðeigandi nemendur og kanni líðan þeirra og undirbúi komu þeirra í skólann (sjá næsta kafla).

3. Ef atburðurinn verður á skólatíma og nemendur tengdir honum eru í skólanum skal sækja þá úr tíma, þeim tilkynnt um atburðinn og hlúð að þeim eins og hægt er. Þar sem mismunandi er hvernig fólk tekur áföllum þarf skólinn að vera undir það búinn að bjóða fram þá aðstoð sem nauðsynleg er til að nemendur fari ekki út úr skólanum í þannig ástandi að þeir geti orðið sjálfum sér og öðrum til skaða.

4. Kannaður verði vilji viðkomandi nemenda til frekari viðbragða og óskir þeirra virtar.


2.3 Stuðningur þegar lengra er liðið frá áfalli


2.3.1 Hjálpa þarf einstaklingi sem orðið hefur fyrir áfalli til að koma aftur í skólann

1. Gott er að fulltrúi skólans, t.d. náms- og starfsráðgjafi, hafi samband við nemanda og semji um heppilegan dag til að koma aftur í skólann og hvernig byrjunin verður.

2. Skipuleggja þarf endurkomuna. Hvað á að segja við þann sem kemur? Sá sem kemur vill vita hvað hefur verið sagt í skólanum.

3. Athuga að það að koma aftur til skóla eða vinnu er ekki eingöngu að vinna upp verkefni heldur líka að hitta vinina og koma skipulagi á líf sitt.

4. Gera ráð fyrir sveigjanleika í kennslu.

5. Hvetja aðra nemendur og starfsfólk til að sýna umhyggju og stuðning.



2.3.2 Áframhaldandi stuðningur eftir áfallið

1. Venjubundið skólastarf sefar óttann og kvíðann sem fylgir áföllum. Mikilvægt er að starfsmenn skólans séu eins eðlilegir og hlýlegir og þeim er unnt. Tillitssemi og virðing felst m.a. í því að staldra ekki of lengi við áföllin heldur halda áfram lífsgöngunni þó sorgin sé til staðar.

2. Hlúð að nemendum. Nemendum gefinn kostur á að vinna með tilfinningar sínar. Boðið upp á einstaklingsviðtöl. Nauðsynlegt getur reynst að fá utanaðkomandi aðstoð til að álag verði ekki of mikið á starfsfólk skólans, t.d. sálfræðing, prest, áfallateymi við heilsugæslustöðvar o.s.frv.

3. Hafi nemandi eða starfsmaður látist, er hins látna minnst með sameiginlegri athöfn sem skipulögð er af skólameistara. Húsvörður flaggar á jarðarfarardag.

4. Votta samúð. Hafa samband við fjölskyldur sem hafa orðið fyrir missi og votta samúð. Minningargreinar, kransar og blóm frá nemendum/skólanum eftir því sem við á.

5. Haldið áfram næstu vikur og mánuði að hlúa að nemendum og starfsfólki skólans. Gefa skal gaum að áfallastreitu meðal nemenda og starfsmanna skólans. Boðið verður upp á hópviðtöl eða einstaklingsviðtöl ef þörf er á undir stjórn til þess hæfra einstaklinga. Áfallateymi metur hvort þörf sé á viðtölum.

2.4 Leyfi vegna andláts, kistulagningar eða útfarar

Nemendur sem biðja um leyfi vegna andláts, kistulagningar eða útfarar er vísað til skólameistara með erindi sitt. Viðkomandi er veitt leyfi tiltekinn dag eða daga. Sé nemandi yngri en 18 ára er þurfa forráðamenn að biðja um þetta leyfi.

 

2.5 Flöggun í hálfa stöng vegna dauðsfalls

Flaggað skal í hálfa stöng vegna andláts starfsfólks, maka starfsfólks, barna starfsfólks, fyrrverandi starfsfólks eða nemanda. Einnig skal flaggað á útfarardag.