Samkvæmt skólareglum er nemendum, starfsfólki skólans og öðrum ekki heimilt að nota tóbak eða nikótínvörur í skólanum, á skólalóðinni eða þar sem viðburðir á vegum skólans fara fram. Skólastjórnendur bera ábyrgð á því að nemendur séu ekki í heilsuspillandi umhverfi á meðan námi þeirra í skólanum stendur og hafa þeir því tekið skýra afstöðu til þess að leyfa enga tóbaks- eða nikótínnotkun á skólasvæðinu. Rafrettur, nikótínpúðar og tóbak verður gert upptækt í skólanum og á viðburðum á vegum hans. Nemendur/forráðamenn (nemenda yngri en 18 ára) verða að nálgast það sem gert er upptækt hjá skólameistara. Þetta er meðal annars liður í að sporna við almennri tóbaks- og nikótínnotkun ungs fólks. Vitað er að tóbaks- og nikótínfíkn myndast mjög fljótt og að ungt fólk gerir sér ekki alltaf fulla grein fyrir því hve ávanabindandi varan er. Mikilvægt er því að grípa sem fyrst inn í eftir að notkun hefst.
Það er vilji starfsfólks skólans að hafa góða samvinnu við nemendur og foreldra þeirra svo koma megi í veg fyrir alla tóbaks- og nikótínnotkun í skólanum. Sem lið í því telur skólinn það vera sitt hlutverk að láta foreldra vita ef börn undir 18 ára aldri nota slíkar vörur í skólanum. Haft er að leiðarljósi að veita nemendum, sem byrjaðir eru að nota tóbak eða nikótínvörur, upplýsingar um þá aðstoð sem þeim stendur til boða. Þeim eru m.a. afhentar upplýsingar um helstu úrræði og vísað á þá sem veitt geta faglega aðstoð við að hætta slíkri notkun.
Skólinn fylgir ákveðinni viðbragðsáætlun sem tekur til brota á tóbaks- og nikótínreglum í skólanum sem byggð er á tillögum frá Lýðheilsustöð og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Þá munu nemendur sem staðnir verða að brotum á þessum reglum verða skráðir niður og þeim upplýsingum komið til forvarnarfulltrúa. Litið er á fyrstu skráningu sem viðvörun og fá nemandi og forráðamenn hans, sé hann undir 18 ára aldri, bréf í tölvupósti þar að lútandi. Við annað brot er nemandi og forráðamenn boðaðir á fund til forvarnarfulltrúa og hafi nemandi ekki bætt ráð sitt og haldi áfram á sömu braut eftir það fer málið í hendur skólameistara.
Síðast uppfært 15. september 2021