Verkmenntaskóli Austurlands gerir þá kröfu á að nemendur sínir temji sér vönduð vinnubrögð við meðferð heimilda og annarra gagna sem aflað er til skriflegra verkefna. Í verkefnum þar sem unnið er með heimildir er gerð krafa um að nota APA heimildakerfið. APA -heimildaskráningakerfið er þróað af Samtökum sálfræðinga í Bandaríkjunum (American Psychological Association) og er ætlað að skapa verklagsreglur um hvernig vitnað er til heimilda og tilvísana í skriflegum verkefnum.
Ávallt skal hafa í huga að áfangar skólans eru mismunandi uppbyggðir og ræður verkefnalýsing kennara alltaf ferðinni, en mælst er til þess að kennarar hafi leiðarvísi þennan í huga þegar verkefni eru lögð fyrir. Því skulu nemendur spyrja kennara viðkomandi áfanga ef eitthvað er óljóst í kröfum og framsetningu verkefna.
Tímarammi verkefnaskila
Nemendur skila verkefnum eftir tilmælum kennara um skilafrest. Eftir að skiladegi lýkur hafa kennarar 15 kennsludaga til að ljúka yfirferð og skila yfirförnu verkefni eða prófi til nemenda. Kennara er heimilt að veita frest á skilum við ákveðnar aðstæður og er það metið hverju sinni. Kennara er einnig heimilt að lækka einkunn ef verkefni er skilað of seint og/eða neita að taka við verkefni sem er skilað of seint.
Ritstuldur
Verkmenntaskóli Austurlands leggur mikla áherslu á vönduð fræðileg vinnubrögð og skal hafa það í huga í allri verkefna- og heimildavinnu.
Virðing fyrir hugverkum annarra er frumskilyrði í heimildavinnu og að taka texta upp eftir öðrum og gera að sínum eigin án þess að geta heimilda rétt telst ritstuldur. Ritstuldur telst því alvarlegt brot og heimilt er að gefa 0 fyrir verkefni verði nemandi uppvís að ritstuldi.
Í verkefnavinnu er gerð sú krafa til nemenda að þeir virði höfundarétt og að öll verkefni sem nemendur skila séu þeirra eigin hugverk. Hvert verkefni sem nemandi skilar inn skal vera einstakt. Með því er átt við að öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan áfanga, milli áfanga eða milli námsbrauta er óheimil, nema annað sé sérstaklega tekið fram.
VA hefur tekið upp Turn-it-in ritstuldarvörnina sem gerir notendum kleift að koma auga á ritstuld og/eða rangar tilvísanir og heimildaskráningu. Kennarar áskilja sér rétt til að taka verkefni til endurskoðunar ef ritstuldarvörn sýnir meira en 25% líkindi við aðra texta.
Hér að neðan eru gagnlegir hlekkir varðandi heimildaskráningu og hagnýtar vefsíður við ritgerðarskrif auk sniðmáts fyrir ritgerðir og verkefni og er nemendum VA bent á að nýta sér þessar vefsíður við vinnslu verkefna.