Starfsandi og mannauður

Jákvæður starfsandi er mikilvægur þáttur mannlífsins innan Verkmenntaskóla Austurlands. Öll samskipti fólks einkennast af tillitssemi og gagnkvæmri virðingu. Mikilvægt er að hlúa að þeim mannauði sem fyrirfinnst í skólanum með því að leggja áherslu á velferð, vellíðan og heilbrigði allra. Aðalsmerkið er að allir fái að nýta sína hæfileika eins og frekast er kostur og öllum séu ljósar þær reglur sem ber að fylgja. Þá er áhersla lögð á lýðræðisleg vinnubrögð þegar teknar eru ákvarðanir um þá þætti sem áhrif hafa á skólabraginn. Haft er í huga að gott starfsumhverfi dregur úr álagi og streitu og eykur almennt starfsánægju.

Samstarf og samskipti

                Í skólanum er brýnt fyrir öllum að bera virðingu fyrir náunganum og á samstarf allra að einkennast af jákvæðum samskiptum. Brýnt er að starfsfólk og nemendur njóti jafnræðis í daglegu starfi óháð stöðu og hlutverki. Allir þurfa að finna að þeir séu velkomnir í skólann og njóti tilhlýðilegrar virðingar en það er forsendan fyrir því að sjálfsmynd einstaklinganna verði jákvæð og þeir séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum í samstarfi við aðra bæði við nám og félagsstarf.

                Áhersla er lögð á að kynna nýjum nemendum og starfsmönnum þær reglur og hefðir sem fylgt er í skólastarfinu og hvatt til jákvæðra samskipta og samstarfs. Nauðsynlegt er að allir innan stofnunarinnar kynnist sem fyrst skólareglum, skólasóknarreglum, heimavistarreglum, reglum sem snerta félagsstarf, umhverfisstefnu og reglum er varða umfjöllun um eineltismál svo þeir aðlagist skólastarfinu eins fljótt og unnt er. Þá er einnig brýnt að kynna próftökureglur, reglur um notkun bókasafns og reglur um notkun tölvubúnaðar skólans.

                Skólinn kappkostar ávallt að taka tillit til aðstæðna starfsfólks og nemenda þegar persónulegir erfiðleikar steðja að.

                Almennt er  lögð áhersla á að nemendur komi í auknum mæli að töku ákvarðana um málefni sem snerta þá beint. Í því sambandi verði lögð rækt við að kynna þeim hefðbundin lýðræðisleg vinnubrögð.

Innra eftirlit

                Mikilvægt er að uppfæra reglulega allar reglur og áætlanir sem erindi eiga til  starfsmanna og nemenda. Þá er einnig brýnt að samskiptaleiðir innan stofnunarinnar séu skýrar og upplýsingaflæðið skilvirkt. Starfsfólki þarf að gefast kostur á að ræða starfsemi skólans og hafa áhrif á þau störf sem það gegnir.

                Hvað upplýsingaflæðið varðar er lögð áhersla á virka heimasíðu, útgáfu prentaðs kynningarefnis og skipulega upplýsingagjöf á sjónvarpsskjá og á veggauglýsingum í skólanum. Þá er upplýsingavefurinn INNA nýttur  til að fylgjast með námi, skólasókn og frammistöðu nemenda.

                Í skólanum starfar sjálfsmatsnefnd sem gegnir því hlutverki að afla upplýsinga um ýmsa þætti skólastarfsins og miðla niðurstöðum til hlutaðeigandi.

Umgengni

                Ávallt skal ganga vel um húsnæði skólans og áhersla lögð á að það sé aðlaðandi, hreint og snyrtilegt. Einnig skal umgengni um kennslubúnað allan vera til fyrirmyndar. Öllum sem starfa í skólanum er mikilvægt að búa við heilnæmt og gott starfsumhverfi og er góð umgengni lykillinn að því.

Mat

      Til að meta stöðu einstakra þátta er varða starfsanda og mannauð er brýnt að framkvæma eftirfarandi:

  • Gera kannanir á meðal starfsfólks og nemenda um líðan á vinnustað
  • Fylgjast með stöðu jafnréttismála með reglubundnum hætti
  • Fylgjast með stöðu og þróun eineltismála á hverjum tíma
  • Uppfæra reglur á ýmsum sviðum með reglubundnu millibili og tryggja að þær séu öllum viðkomandi aðgengilegar
  • Skapa gæðanefnd góðar starfsaðstæður
  • Meta þátt nemenda í ákvarðanatöku um málefni sem snerta þá beint
  • Hvetja til endurmenntunar og viðbótarnáms starfsfólks með skipulögðum hætti og gera því kleift að leggja stund á viðkomandi nám
  • Meta með reglubundnum hætti hvernig gengur að framfylgja heimavistarreglum
  • Meta hvernig gengur að framfylgja umhverfisstefnu skólans
  • Fylgjast með  menntunarstigi starfsfólks í samanburði við aðra framhaldsskóla