Skólinn sem hluti af samfélagi

Verkmenntaskóli Austurlands leggur mikla áherslu á góð tengsl við það samfélag sem hann starfar í og það atvinnulíf sem hann þjónar.  Markmið skólans er að bjóða upp á menntun sem gagnast samfélaginu sem hann er hluti af. Almenn menntun sem boðið er upp á í skólanum tekur mið af þeim grunnþáttum sem tilteknir eru í Aðalnámskrá framhaldsskóla og nýtast þeir nemendunum  í daglegu lífi og í þátttöku þeirra í samfélaginu. Skólinn leggur rækt við að fylgjast með þróun samfélags og atvinnulífs og metur á grundvelli hennar hvort ástæða sé til að gera breytingar á námsframboði.

Samfélag og umhverfi

                Verkmenntaskóli Austurlands vill í auknum mæli taka þátt í málefnum nærsamfélagsins auk þess sem samfélagsþróunin á öllu starfssvæði skólans hefur áhrif á námsframboð hans og námsskipulag. Þá gefur tækni nútímans og alþjóðlegt samstarf skólanum kleift að taka þátt í verkefnum með fulltrúum framhaldsskóla  annarra þjóða.

                Skólinn leggur rækt við að undirbúa alla nemendur sína sem best fyrir  þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og á vettvangi atvinnulífs. Skólinn sjálfur á að endurspegla samfélagið og innan veggja hans eiga að ríkja samsvarandi lögmál og almennt ríkja þar. Í starfi sínu leggur skólinn áherslu á sjálfbærni en sjálfbærnimenntun gerir fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis og  félagslegra- og efnahagslegra þátta í þróun samfélagsins.

Menntun og menning

                Starfsfólk skólans er þess meðvitað að starfsemi hans er hluti þeirrar staðbundnu menningarheildar sem hann starfar í. Hann á að vera lifandi mennta- og menningarsetur sem verður fyrir áhrifum frá umhverfi sínu um leið og hann hefur mótandi áhrif á það. 

                Mikilvægt er að fylgst sé vel með þróun menntamála í landinu og byggt upp traust samstarf við mennta- og menningarstofnanir innanlands og erlendis eftir því sem við á.

                Markvisst er unnið að því að bæta tjáskiptahæfni og læsi nemenda ásamt því að efla dómgreind og þjálfa gagnrýna hugsun svo þeir hafi góðar forsendur til virkrar þátttöku í samfélagslegum verkefnum og lýðræðislegu samfélagi.

Mat

   Til að meta stöðu einstakra þátta er varða samfélag og umhverfi er brýnt að framkvæma eftirfarandi:

  • Fylgjast með fjölda þeirra viðburða á vegum skólans sem tengja hann samfélaginu nær og fjær
  • Leggja mat á umfjöllun fjölmiðla um skólastarfið og það hlutverk sem skólinn gegnir í samfélaginu
  • Fylgjast náið með þróun atvinnulífs og leggja mat á hvort breytingar þar eigi að hafa áhrif á námsframboð og skólastarf
  • Leggja mat á þróun samskipta skólans við atvinnulífið á starfssvæðinu
  • Leggja mat á möguleg samstarfsverkefni skólans og atvinnufyrirtækja eða menningarstofnana
  • Leggja mat á möguleg samstarfsverkefni skólans og annarra menntastofnana bæði innlendra og erlendra.