Þau grunngildi sem skólastarf Verkmenntaskóla Austurlands byggir á eru eftirtalin: Agi, jafnrétti, sköpun, samvinna og framfarir.
Í öllu skólastarfi er mikilvægt að kennsla og nám einkennist af skipulagi og aga. Nemendur þurfa að beina hugsun sinni í ákveðna átt á hverjum tíma og skipuleggja störf sín með markvissum hætti. Eins er mikilvægt að agaðrar hugsunar og hegðunar gæti í störfum á sviði félagslífs. Sjálfsagi nemenda er lykillinn að góðum árangri.
Skólinn leggur áherslu á jafnan rétt allra einstaklinga og hópa í skólastarfinu. Allir eiga að njóta sömu tækifæra óháð kynferði, kynhneigð, kynþætti, trú, efnahag eða andlegu og líkamlegu atgerfi.
Skólastarfið allt á að hvetja til skapandi hugsunar og frumkvæðis allra sem að því koma. Áhersla skal lögð á áræðni og leitast við að skapa aðstæður til að hrinda jákvæðum nýjungum í framkvæmd.
Samvinna er grunngildi sem er afar þýðingarmikið. Vekja skal athygli á því að samstarf af öllu tagi getur stuðlað að framgangi verkefna sem einstaklingnum er ofaukið að hrinda úr vör og leysa. Gamla orðtækið „margar hendur vinna létt verk“ skal hér haft að leiðarljósi og einnig hið fornkveðna „maður er manns gaman“.
Nútímaskólastarf þarf að vera framsækið og það haft í huga að unnt er að hafa mótandi áhrif á framtíðina. Í Verkmenntaskóla Austurlands skal hvatt til framsækni á öllum sviðum þó svo að rótgróin gildi séu einnig virt.