Til þess að ná þeim markmiðum skólans um að búa nemendur undir að takast á við kröfur daglegs lífs, framhaldsnám og störf er nauðsynlegt að þeim sé skapað gott námsumhverfi. Almennar skólareglur, reglur um skólasókn og reglur um fagleg vinnubrögð eru hluti af góðu og skipulögðu námsumhverfi og leiðbeinandi fyrir nemendur á námsvegferðinni. Nemendum ber að kynna sér skólareglur og fara eftir þeim. Hann/hún/hán geta ekki komið sér undan brotum á reglum með því að beita fyrir vanþekkingu á þeim.
- Innan skólans gilda landslög sem skólareglur án þess að þeirra sé sérstaklega getið.
- Nemendur skulu ganga hreinlega og prúðmannlega um húsakynni skólans og fara vel með eigur hans.
- Nemendur skulu fara úr blautum og skítugum skóm og eru hvattir til að skilja aldrei peninga eða önnur verðmæti eftir því engin ábyrgð er tekin á eigum nemenda.
- Rusli skal fleygt í ruslakörfur en ekki á gólf eða lóð skólans.
- Nemendur skulu ekki valda öðrum ónæði á starfstíma t.d. í kennslustundum, matsal, á bókasafni eða í nemendarýmum og sýna í hvívetna, háttvísi og prúðmennsku á almannafæri.
- Nemendum og starfsfólki skólans ber að sýna kurteisi, heiðarleika og tillitssemi í umgengni hvert við annað. Einelti og ofbeldi líðst ekki.
- Í kennslustundum er kennarinn verkstjóri og ber nemendum að fara eftir fyrirmælum hans.
- Tölvu- og símanotkun í kennslustundum er undir stjórn kennara.
- Valdi nemandi skemmdum á húsnæði og munum skólans, ber honum/henni/háni að skýra skólameistara eða umsjónarkennara frá því. Nemandi skal bæta skemmdir sem hann/hún/hán er valdur að, eftir ákvörðun skólameistara.
- Reykingar og önnur tóbaksnotkun er bönnuð samkvæmt lögum í húsnæði skólans og á skólalóð. Sama á við um notkun rafsígaretta,um notkun nikótínvara og tóbakslíkis á borð við rafsígarettur og nikótínpúða.
- Óheimilt er að neyta eða vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna í húsakynnum skólans og á samkomumá vegum hans.
- Neysla matar og drykkjar í kennslustofum er óheimil nema í samráði við kennara. Þó er vatn á brúsum undanskilið þar sem aðstæður leyfa.
- Auglýsingatöflur eru ætlaðar fyrir auglýsingar um skólahald og félagslíf nemenda. Ekki má festa upp auglýsingar annar staðar en á auglýsingatöflur, nema með sérstöku leyfi skólameistara.
- Nemendum er óheimilt að bera vopn í skólanum. Hvort sem um er að ræða hnífa, skotvopn, rafbyssur eða önnur þau vopn sem falla undir skilgreiningar vopnalaga nr. 16/1998.
- Brjóti nemandi reglur skólans ber að veita honum/henni/háni munnlega ábendingu eða áminningu. Við alvarlegri brot kemur til skrifleg áminning frá skólameistara og við ítrekuð eða mjög gróf brot er nemanda vísað úr skóla.
Síðast uppfært 20. júní 2024