Um sl. helgi fóru nemendur Verkmenntaskóla Austurlands í menningaferð til Akureyrar. Hinn íhaldsami og röggsami bílstjóri ferðarinnar Garðar lagði af stað með hópinn kl. 13 á föstudaginn frá Verkmenntaskólanum. Stoppað var á Eskifirði og Reyðarfirði og nemendur sem búsettir eru á þeim stöðum teknir með. Ferðin norður gekk vel og komust allir leiðangursmenn á Greifann en þar nærðust ferðalangar áður fara átti í leikhús. Pizzuhlaðborðið rann ljúflega ofan í mannskapinn en þaðan var haldið í Hof sem er menningarhús Norðlendinga. Glæsileg bygging með vísun í stuðlaberg hinnar íslensku fjöru. Í Hofi fóru nemendur og fararstjórar á leikritið Þetta er grín, án djóks þar sem Saga Garðarsdóttir og Halldór Halldórsson túlka vandræðagang grínista í gagnrýnu samfélagi athugasemdakerfa og samfélagsmiðla. Þess má geta að Halldór hefur erft eyrun frá afa sínum. Eftir leikhúsferð fóru nemendur ýmist á gistiheimilið Backpackers þar hópurinn gisti eða mældu göturnar á Akureyri. Á laugardeginum var ferðinni heitið í Skautahöll Akureyringa þar sem ungir og aldnir í hópnum renndu sér fram og aftur. Þaðan fór hópurinn í Flugminjasafn Akureyringa, þar tók á móti okkur Gestur Einar Jónasson sem lék Gogga í kvikmyndinni um Stellu í orlofi. Hann hélt stutta tölu um safnið og helstu minjar þess. Svo gafst hópnum tækifæri að skoða safnið sem vakti mikla lukku enda safnið hlaðið munum og fróðleik um flugsögu Íslendinga. Á laugardagskvöldinu fóru allir og snæddu á veitingastaðnum Bryggjunni. Eftir það fóru margir í bíó, aðrir mældu götur og sumir fóru á gistiheimilið og gripu í spil. Á heimleiðinni á sunnudeginum kom hersingin við í Jarðböðunum í Þingeyjarsveit og lét þreytuna líða úr sér. Rútan renndi síðan inn í Norðfjörð rúmlega 19 á sunnudagskvöldið með þreytta en sátta ferðalanga.
Þó nemendur hefðu haft rúman útivistartíma voru þeir sér, Verkmenntaskólanum og öðru æskufólki til fyrirmyndar. Allir blésu í áfengismæli bæði kvöldin sem staðfesti að enginn hafði áfengi um hönd.
Ágúst, Eydís og Salóme