Lokaverkefnisáfangi

Í lokaverkefnisáfanga nota nemendur þá leikni, hæfni og þekkingu sem þeir hafa aflað sér til að vinna að heildstæðu verkefni. Áherslan skal vera á leiðsagnarhlutverk og að nemandi hafi tækifæri til að bæta sig.

Nemandi velur sér verkefni eftir áhugasviði að höfðu samráði við kennara. Gert er ráð fyrir að nemandi velji efni tengt sinni braut, þó er mögulegt að víkja frá þeirri reglu, en áfanginn gefur möguleika á þverfaglegu samstarfi.

Öllu jafna er lokaverkefnið einstaklings- eða tveggja manna verkefni en hægt er að óska eftir undanþágu sem þarf þá að rökstyðja sérstaklega og lýsa vinnuframlagi hvers og eins í hópnum. Mikil áhersla er lögð á sjálfstæð og skapandi vinnubrögð.

Leggja þarf mat á a.m.k. fjóra þætti t.d. fræðilega umfjöllun, aðferðir, verkkunnáttu, sköpun, framkvæmd, framvindu, úrvinnslu, meðferð heimilda, uppsetningu verkefnis, kynningu o.s.frv. Vægi einstakra þátta kemur fram í kennsluáætlun áfangans.