Annasamir dagar í VA

Nemendur VA hafa verið í önnum síðastliðnar tvær vikur. Söngleikurinn GRÍS, opnir dagar og árshátíð nemendafélagsins eru að baki. Framundan er tveggja vikna námstörn fram að páskafríi. Sitthvað er þó í gangi utan við hefðbundið nám og ber þar hæst Tæknidag fjölskyldunnar 16. mars og í takt við hreyfingarþema Heilsueflandi framhaldsskóla verður haldinn skíðadagur í austfirsku Ölpunum ef veður leyfir í næstu viku. 

Söngleikurinn GRÍS var sýndur við geysimiklar vinsældir í Egilsbúð og lauk sýningum 2. mars. Þá höfðu um 900 manns sótt sýningarnar og uppselt á fimm sýningar af sjö. Leikritið var sýnt í samstarfi Djúpsins, leikfélags VA og Leikfélags Norðfjarðar. Sýningarnar þóttu afar kraftmiklar og leikarar fóru á slíkum kostum að slíkt verður í minnum haft. Það er óhætt að segja að íbúar Austurlands mega hlakka til næstu uppfærslu. Leikmynd þótti mjög hugvitssamleg, búningar í stíl við aldarháttinn sem verkið á að túlka og lýsing með ágætum. Lifandi tónlist með tíu hljóðfæraleikurum setti punktinn yfir i-ið í þessari frábæru sýningu. Leikstjórinn, Stefán B. Vilhelmsson og Svanlaug Aðalsteinsdóttir, verndari Djúpsins, eiga heiður skilinn fyrir sína aðkomu að sýningunni.

Opnir dagar í VA tókust með ágætum. Nemendur völdu sig í hópa þrjá daga, fyrir og eftir hádegi. Eftir að hóparnir hittust í manntali kl. 8:30 var boðið upp á morgungraut og söngsal. Þá tók við vinna í hópum til kl 15:00 með klukkutíma matarhléi. Auk hópastarfs var boðið upp á kynskipta fyrirlestra einn seinnipartinn þar sem Kristín Tómasdóttir ræddi við stúlkurnar um "stelpur geta allt" og Snorri Björnsson við strákana um "karlmennsku og jafnrétti". Uppskeruhátíð var svo í lok opinna daga þar sem öllum var boðið í hádegisverð í heimavist skólans, þar sem m.a. var gírað upp fyrir árshátíð um kvöldið og síðan endað með tónleikum tónlistarfólks skólans í Blúskjallaranum með "muffins" og mjólk.

Árshátíðin fór svo fram í Egilsbúð með borðhaldi og dansi frá kl. 8:30 - 03:00. Jóhannes Haukur var frábær veislustjóri og Matti Matt. söng og spilaði með hljómsveit hússins - einnig frábær. Fjölmargir gestir komu frá Menntaskólanum á Egilstöðum og gerðu VA nemar góðan róm að því framtaki. Ballið var eldfjörugt og þrátt fyrir fjúk á fjallvegum komust allir til síns heima um nóttina.