Bleikt í minningu Bryndísar Klöru

Í dag, föstudaginn 13. september var flaggað í hálfa stöng við Verkmenntaskóla Austurlands vegna útfarar Bryndísar Klöru Birgisdóttur nemanda við Verzlunarskóla Íslands. Örlög hennar hafa haft sterk áhrif á nemendur og starfsfólk skólans og sendum við aðstandendum hennar, vinum, samnemendum og starfsfólki Verzlunarskóla Íslands okkar innilegustu samúðarkveðjur. 

Uppáhalds litur Bryndísar Klöru var bleikur og var það því að frumkvæði nemendafélags VA að boða bleikan dag í skólanum í dag og heiðra þannig minningu hennar og sýna stuðning. Það var því bleikt um að litast í dag og hér má sjá nokkrar myndir frá deginum þar sem nemendafélagið bauð upp á bleikar vöfflur að loknum hádegismat. 

VA vill vekja athygli á minningarsjóð Bryndísar Klöru en honum er ætlað að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni. Sjóðurinn mun einbeita sér að fræðslu, rannsóknum og vitundarvakningu til að koma í veg fyrir að sá hörmulegi atburður er leiddi til fráfalls Bryndísar Klöru endurtaki sig. 

Tekið er við framlögum á reikninginn 0515-14-171717, kennitala 430924-0600