Í VA er boðið upp á sjúkraliðanám. Ýmsir verklegir áfangar eru hluti af náminu og meðal þeirra eru tveir áfangar sem hafa verið kenndir á þessari önn. Áfangarnir bera heitin hjúkrun verkleg og líkamsbeiting. Í hjúkrun verklegu er farið yfir helstu þætti í umönnun sjúklinga, sjúkraumhverfið, notkun hjálpartækja, persónulegar þarfir sjúklinga og leiðir til að mæta þeim. Lífsmörk, skráningu, hreinlæti og smitgát og ýmislegt fleira. Í líkamsbeitingu er farið yfir vinnuumhverfið og áhrif þess, fjallað um líkamsbeitingu og líkamsvitund, vinnutækni og leiðir til að bæta vinnutækni og draga úr líkamlegu og andlegu álagi við vinnu. Báðir áfangarnir eru að mestu verklegir og hafa síðustu ár verið kenndir í verklegum lotum á Umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað (FSN). Loturnar síðustu ár hafa verið keyrðar yfir helgi. Byrjað er seinnipartinn á föstudegi og endar seinnipart sunnudags með verklegum prófum. Í þessum tímum/lotum er bæði fræðsla og verkleg kennsla þar sem nemendur skiptast á að leika sjúkling og skiptast á að framkvæma ýmis umönnunar- og hjúkrunartengd verkefni.
Í ár var metaðsókn í áfanganna og í góðri samvinnu við Sjúkrahúsið og starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) var fyrsta lotan haldin inn á sjúkrahúsinu áður en þriðja bylgja COVID byrjaði fyrir alvöru í haust. Seinni tveir hóparnir voru í miðri þriðju bylgju og því ekki talið æskilegt að fara með hópa nemenda inn á sjúkrahúsið. Því var ákveðið, í samvinnu við FSN, að fá lánaða ýmsa hluti sem eru nauðsynleg fyrir kennsluna og ákveðið að keyra seinni tvær loturnar inn í Verkmenntaskólanum.
Það sem var fengið að láni frá FSN var meðal annars, en ekki tæmandi listi: Tvö sjúkrarúm, rúmföt og lín, blóðþrýstingsmælir og mælar fyrir önnur lífsmörk, ýmis léttitæki, hjálpartæki fyrir sjúklinga og ýmislegt fengið til að sýna og kenna nemendum t.d. kring um stóma, þvagleggi og svo miklu, miklu fleira. Starfsfólk FSN á miklar þakkir skyldar fyrir alla aðstoðina.
Kennslan sjálf gekk mjög vel. Stundum þurfti að notast við lausnarmiðaða nálgun (eins og gerist stundum inn á sjúkrastofnunum) og notast við það sem hendi var næst. Eins þurftu nemendur að taka mikið sjálfir með sér í kennsluna eins og t.d. nokkur stykki af handklæðum og þvottapoka fyrir umönnun. Það kom þó ekki að sök. Þessir tímar eru yfirleitt mjög líflegir og skemmtilegir og nemendur kynnast vel og mynda jafnvel ný vinatengsl.
Með fréttinni má sjá myndir af lotunni sem fór fram í nemendarými skólans.