Föstudaginn 15. nóvember komu nemendur og starfsfólk saman í sal skólans til þess að fagna degi íslenskrar tungu og því að VA fékk afhentan sinn fjórða Grænfána.
Nemendur í lokaáfanga í íslensku og nemendur í umhverfisnefnd sáu um og stýrðu athöfninni.
Rebekka Rán Hjálmarsdóttir og Sesar Andri Pétursson hófu athöfnina með því að bjóða alla velkomna og fara yfir dagskrána. Þau fjölluðu um að Dagur íslenskrar tungu væri haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember á hverju ári en þar sem hann er á laugardegi í ár var ákveðið að halda uppá hann á föstudaginn 15. nóvember. Jónas Hallgrímsson fæddist 1807. Hann var ekki aðeins eitt mesta skáld okkar Íslendinga, heldur var hann líka náttúrufræðingur og fjalla mörg ljóð hans um íslenska náttúru.
Ágústa Vala Viðarsdóttir fjallaði um að við ættum að nota tækifærið á þessum degi og ræða íslenska tungu í víðu samhengi. Jónas vildi vernda íslenskuna og vann ekki aðeins að því með skáldskap sínum heldur var hann afkastamikill nýorðasmiður. Hann vildi að við smíðuðum ný orð frekar en að taka upp orð úr erlendum málum. Jónas bjó til orð eins og geislabaugur, haförn, áttfætla og kvöldbjarmi.
Nadia Aleksandra Pacak velti vöngum yfir hvað Jónasi fyndist um stöðu íslenskunnar í dag þegar nú dynja á okkur auglýsingar um Black Friday, Singles Day og Tax Free daga. Víða við helstu náttúruperlur okkar, virðist enskan vera að sigra íslenskuna. Á veitingastöðum sem bera erlend nöfn er matseðillinn oft bara á ensku. Við getum gert betur. Framtíð íslenskunnar er í okkar höndum.
Tvö ljóð voru flutt. Anna María Sigurðardóttir flutti ljóðið Hreinsun eftir Gyrði Elíasson og Patrekur Aron Grétarsson flutti ljóðið Ævintýri á fjöllum eftir Gerði Kristnýju
Þá steig Guðrún Schmidt, fulltrúi Landverndar á stokk, flutti ávarp og afhenti fulltrúum nemenda í umhverfisnefnd Grænfánann og viðurkenningarskjal.
Í lok athafnar komu Hafrún Katla Aradóttir og Jóhanna Dagrún Daðadóttir, fulltrúar nemenda í umhverfisnefnd, og sögðu frá þeim þemum sem á að vinna með á nýju Grænfánatímabili en það eru Átthagar og landslag, Vistheimt og Orka.
Einnig vöktu þær athygli á Nægjusömum nóvember, hvatningarátaki sem Landvernd og Grænfáninn standa að og enduðu á því að sýna stutt myndband um Nægjusaman nóvember sem finna má hér
Eftir athöfnina var öllum boðið upp á flatböku.
Hreinsun
Einhverntíma kemur
að því að plánetan fær nóg,
tekur á sig snöggan rykk
á ofurhröðum snúningi sínum
og þeytir öllum þessum 7 milljörðum
ásamt því sem tilheyrir út í myrkan
geiminn, svona rétt einsog þegar
dýr hristir af sér óværu. Svo
byrjar hún í rólegheitum
upp á nýtt að safna
lífi
Ævintýri á fjöllum
Fjallkonan spennir á sig hamrabeltið
og hendist niður hlíðina
dýfir könnu leiftursnöggt í lækinn
og þambar á hlaupum
Hún má engan tíma missa
Frést hefur að þýskur ferðamaður
reiki rammvilltur um sveitina
Hún ætlar að ná honum
áður en björgunarsveitin birtist
Það tekst henni líka,
bregður fyrir hann fæti
og fleygir í lyngið
Um kvöldið renna hundarnir
á lyktina
finna manninn
bundinn og blóði drifinn
Fagurhvítar fjallasóleyjar
balderaðar í hvíta bringuna