Undanfarið eitt og hálft ár hefur VA tekið þátt í erlenda samstarfverkefninu DEPEND með Gospodarska skola í Čakovec í Króatíu, Szegedi Móravárosi Szakképzö Iskola í Szeged í Ungverjalandi, Instituto di Instruzione Superiore Roncalli í Poggibonsi á Ítalíu, Gimnazija Celje Center í Celje í Slóveníu og Odda vidaregaende skule í Odda í Noregi. Verkefnið er styrkt af Erasmus+. Viðfangsefni verkefnisins er fíkn (e. addiction) og hófst verkefnið formlega í Ungverjalandi í nóvember 2021. Hópar hafa síðan hist í hverju landi fyrir sig, tveir nemendur og tveir kennarar frá hverju landi og vinna að forvarnatengdum verkefnum.
Fyrsti svoleiðis hittingurinn var í Slóveníu vikuna 21. - 25. mars 2022 þar sem fjallað var almennt um fíknir. Þá var haldið til Noregs dagana 9.-13. maí þar sem fjallað var um skjáfíkn. 3.-7. október var haldið til Króatíu þar sem umfjöllunarefnið var átraskanir. Ungverjaland var svo viðkomustaðurinn dagana 5.-9. desember og var þar fjallað um áfengi. Ítalía var síðan heimsótt 6.-10. febrúar á þessu ári og var umfjöllunarefnið eiturlyf. Síðasti hittingurinn var svo haldinn í Neskaupstað í síðustu viku, 17.-21. apríl og var þemað nikótín.
Nemendur og starfsfólk unnu að fjölbreyttum viðfangsefnum. Fyrsta daginn var byrjað á því að fara um skólann í fylgd nemenda, síðan tók við erindi um forvarnarstarf í Fjarðabyggð en það var Eyrún Inga Gunnarsdóttir, deildarstjóri tómstunda- og forvarnamála sem hélt erindið. Að því loknu héldu nemendur í Fab Lab þar sem þeir unnu undir styrkri stjórn Mósesar Helga Halldórssonar, verkefnastjóra smiðjunnar en hann fékk góða aðstoð frá nemendum VA. Kennararnir héldu á verkefnisfund.
Á þriðjudeginum unnu nemendur og kennarar saman í kynningum á hinum ýmsu tegundum af nikótínvörum. Eftir það var vinnan kynnt og rætt var um það sem er líkt á milli landanna og ólíkt. Fór umræðan út um víðan völl og ljóst er að þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir eru um margt líkar. Síðar um daginn nutu nemendur samveru við hvert annað og kennararnir fóru í Fab Lab vinnu.
Á miðvikudeginum var dagskráin helguð skoðunarferð upp á varnargarðana þar sem Pjetur St. Arason fræddi gestina um allt sem fyrir augu bar. Einnig var lögð áhersla á að kynna fólk fyrir þeim tómstundaúrræðum sem eru í boði enda hafa þau mikið forvarnagildi og nutu nemendur dagsins í Egilsbúð sem er miðstöð tómstunda í Neskaupstað. Einnig var Safnahúsið í Neskaupstað heimsótt.
Á fimmtudeginum (Sumardeginum fyrsta) var haldið í ferð. Nemendur og kennarar fóru á nokkrum bílum og nutu dagsins í einmuna veðurblíðu. Var haldið upp í Oddsskarð, á Hólmanes, í Stuðlagil, að Rjúkanda, skoðað hreindýr, farið í Vök og síðan endaði dagurinn í ljósaskiptunum í Hafnarhólma að hitta lundana sem eru nýkomnir. Dagurinn var langur en afar góður. Ákveðið var að hafa skírteinisafhendinguna degi fyrr en venjulega, bæði til að nýta veðrið og hafa hana á óhefðbundinn hátt. Fór hún fram á bakkanum í Vök eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Á föstudeginum var sest niður, ráðið ráðum sínum og nemendur nutu síðustu stundanna saman að sinni þangað til gestirnir fóru að hópast heim á leið.
Framhaldið á verkefninu er þannig að nú þarf að taka saman allan afraksturinn, kynningar, verkefni og niðurstöður áður en skýrslu verður skilað inn. Árangurinn af verkefninu hefur verið mikill og á það eftir að verða sett fram í skýrslunni. Sá hluti verkefnisins sem verður ekki eins áþreifanlegur og það sem kemur fram í skýrslunni en er mikilsverðastur er hvaða áhrif þetta hefur á þátttakendur. Í verkefninu hafa orðið til vinasambönd fyrir lífstíð, bæði meðal kennaranna og nemendanna. Í vikunni í Neskaupstað hélt nemendahópurinn saman alla vikuna, bæði meðan á formlegri dagskrá stóð og eftir hana. Þetta var eins og ein stór fjölskylda og það að kynnast fólki frá öðrum löndum, siðum og hefðum, eiga samskipti á öðru tungumáli en við erum vön, það gerir okkur kleift að vaxa sem einstaklinga. Við erum því afar þakklát Erasmus+ sem gerir okkur það kleift að taka þátt í vinnu eins og þessari. Einnig þökkum við vinum okkar í hinum skólunum innilega fyrir afar ánægjulegt samstarf.
Á meðfylgjandi myndum má sjá frá vikunni í Neskaupstað.