Upplestur á frétt.
Leikkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir útskrifaðist af félagsfræðibraut frá VA fyrir tólf árum síðan, vorið 2008. Útskriftarhópurinn taldi alls 38 nemendur og lauk Katrín náminu á þremur árum.
Snemma varð ljóst að áhugi hennar lá á sviði skapandi starfs og sem barn setti hún upp heilu sýningarnar heima í stofu. Gefum Katrínu orðið: „Áhugi minn á söng og leiklist hefur verið síðan ég var lítil. Fór mikið í leikhús sem barn og horfði þá á fyrirmyndir í faginu sem ég gat litið upp til. Hef í raun aldrei „losnað undan” því að hafa ætlað mér þessa braut.” Á grunnskólaárunum stóð hún fyrir alls kyns skapandi starfi sem fylgdi henni síðan yfir í framhaldsskólann. Þegar kom að því að velja framhaldsskóla skipti hana mestu að „geta verið sem næst foreldrahúsum og í minni heimabyggð þar sem ég vann mikið með skólanum. Bæði var ég að fylgja vinum mínum úr grunnskóla og vorum við samferða í náminu áfram sem var ótrúlega skemmtilegt.”
Á námsárunum í VA var leiklistaráhuginn heldur betur nærður. Ekkert leikfélag var starfandi í skólanum þegar Katrín hóf nám þar en hún kom að því að stofna leikfélagið Djúpið. Á þeim árum lék hún stórt hlutverk í starfi þess. Hún skrifaði handrit, leikstýrði og lék, bæði í VA og kom einnig að uppsetningu á leikritum 9. bekkjar Nesskóla. Þessi reynsla sem hún fékk af þessu starfi kom til góða seinna meir. Katrín lýsir því að þetta hafi verið „mikil og góð reynsla í því að ákveða eitthvað og framkvæma hlutina, vinna sjálfstætt og í samstarfi með öðrum þar sem svo margir koma að einni sýningu”.
Einn af kostum skólans er nálægðin, allir þekkja alla. Við það getur skapast ákveðið frelsi og fengu Katrín og samnemendur hennar mikið frelsi til að gera allt sem þeim datt í hug, til dæmis fengu þau að gera stuttmyndir og sketsa fyrir árshátíðarmyndbönd og var þá mikið hlegið.
Í kjölfar útskriftarinnar flutti Katrín suður og reyndi við að komast inn í leiklistarnám í Listaháskólanum. Það tókst í þriðju tilraun. Á milli prufa spreytti hún sig á ýmsu, m.a. námi í íslensku, söngnámi bæði í Danmörku og hérlendis, vann á kaffihúsum og í Stúdentaleikhúsinu. Brennandi áhugi fyrir leiklistinni skilaði því að hún gafst ekki upp og allt er þegar þrennt er.
Þegar kemur að því að senda nemendum skilaboð segir Katrín: „Allir eru mismunandi, sumir eru búnir að finna hvað þá langar að gera mjög snemma en aðrir finna ekki út úr því fyrr en löngu seinna. Ég held það sé mikilvægt að hafa í huga að ef þig langar eitthvað nógu mikið að gefa þig allan í það, hafa skýran fókus. Eins ef þú ert ekki viss hvað þig langar þá held ég að það sé mikilvægt að vera nógu forvitin/nn, skoða allskonar nám og reyna að kynnast sem flestum ólíku hlutum og þannig vinna þig nær einhverjum fókus. Allt sem þig langar til að gera - gerðu það!”