Heil og sæl!
Nú höfum við góðar fréttir að færa.
Verkmenntaskóli Austurlands og Menntaskólinn á Egilsstöðum hafa fengið sameiginlega undanþágu frá ákveðnum þáttum reglugerðar um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Undanþágan er veitt að teknu tilliti til þess hversu fá smit hafa greinst á Austurlandi og að ýtrustu sóttvarnaráðstafana sé gætt.
Við getum því sett allt dagskólanám á staðnum í gang á ný. Með einnig undantekningu þó enn sem komið er þar sem hreyfing verður í fjarnámi þar til Salóme lætur vita af öðru.
Allir dagskólanemendur eiga því að mæta í skólann á morgun samkvæmt stundaskrá. Vinsamlegast skoðið vel í hvaða stofum tímarnir eru því einhverjar breytingar hafa orðið.
Iðnnámið sem hefur verið á flakki undanfarnar vikur fer nú aftur í sín hefðbundnu rými.
Eins meters reglan verður í gildi og einnig gilda áfram allar sóttvarnareglur sem verið hafa frá upphafi haustannar. 30 manna hámark í rými mun enn gilda en undanþágan veitir heimild til að farið sé á milli rýma. Mikilvægt er að við sameinumst öll um að koma í veg fyrir hópamyndun svo ekki verði farið yfir hámarksfjölda.
Það verður grímuskylda í skólanum. Leggur skólinn til sóttvarnargrímur. Þær eru aðgengilegar við innganga bók- og verknámshúss og í mötuneytinu. Nemendur á heimavist sækja vikuskammta af grímum til umsjónarmanns á heimavist. Mikilvægt er að nota grímuna rétt því annars gerir hún ekkert gagn og veitir falskt öryggi. Hér eru góðar leiðbeiningar um grímunotkun.
Við minnum enn á mikilvægi einstaklingsbundinna sóttvarna, handþvott, spritt og að virða nálægðarmörkin. Einnig að þeir sem finni fyrir einkennum COVID-19 haldi sig heima í samræmi við leiðbeiningar skólans.
Við erum öll almannavarnir og getum þetta saman!
Mötuneyti verður aðgengilegt nemendum með eftirfarandi hætti:
- 12:00 – 12:30 Stúdentsbrautir, starfsbraut, framhaldsskólabraut, háriðngreinar
- 12:30 – 13:00 Bygginga- og mannvirkjagreinar, málm- og véltæknigreinar, rafiðngreinar
Við hlökkum til að sjá ykkur
Með góðri kveðju,
skólameistari