Heimsókn í SVN

Gaman, gaman
Gaman, gaman

Á fyrsta degi opinna daga fór hópur nemenda í heimsókn inn í fiskiðjuver og mjöl- og lýsisverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þar tók við hópnum Hákon Viðarsson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar og leiddi hópinn í gegnum verksmiðjur fyrirtækisins. Hópurinn fór meðal annars í gegnum bolfiskvinnslu fiskiðjuversins þar sem unnið var að yfirferð véla og tækja en stefnt er að hefja vinnslu þar eftir nokkurra ára hlé. Einnig fylgdist hópurinn með þar sem verið var að pakka afurðum í vélum og var hópurinn sammála um að sjálfvirknin væri ótrúleg.

Síðan lá leiðin yfir í mjöl- og lýsisverksmiðju fyrirtækisins þar sem gengið var um framleiðslusalina og smakkað á mjöli og síðan tók við hápunktur ferðarinnar þar sem farið var upp á mjöltanka verksmiðjunnar og inn í „skötuna“ og útsýnisins yfir fjörðinn notið þaðan.

Verkmenntaskóli Austurlands þakkar Síldarvinnslunni fyrir höfðinglegar móttökur og fyrir afskaplega skemmtilegan og fróðlegan morgun á athafnasvæði fyrirtækisins.