Nú sem áður höfum við verið virk í erlendum samstarfsverkefnum sem styrkt eru af Erasmus+. Við erum í samstarfsverkefni við franskan skóla, Lycée de l´Europe, sem staðsettur er í Dunkirke í Frakklandi og fengum nú í vikunni 16. - 20. september 6 nemendur í heimsókn til okkar ásamt tveimur kennurum. Nemendurnir gistu hjá nemendum okkar og fjölskyldum þeirra sem eru jafnframt þátttakendur í verkefninu en það eru þau Hafrún Katla, Freyr, Jóhanna Dagrún, Magnús Orri, Brynjar Dan, Hrefna Ágústa og Eyvör Rán.
Veðrið lék við okkur á meðan þessari heimsókn stóð og var nóg um að vera í vikunni þar sem við buðum Frökkunum m.a. að prófa FabLab, sitja íslenskar kennslustundir, heimsóttum Franska Safnið á Fáskrúðsfirði og gátum kynnt þau fyrir starfsemi Loðnuvinnslunnar. Safnahúsið í Neskaupstað var heimsótt auk þess sem farið var í reiðtúr á Skorrastað og smakkað dýrindis krækiberjasaft og þurrkað geitakjöt. Nemendurnir fengu það hlutverk að bera saman löndin tvö, Ísland og Frakkland, og kynna fyrir hvort öðru sem hluta af hópverkefni vikunnar og gerðu þau það listilega vel.
Í lok febrúar munum við svo leggja land undir fót með þátttakendur verkefnisins og heimsækja frönsku vini okkar til Dunkirke.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá heimsókninni.
Þess má geta að í VA hafa verið staddir 4 erlendir skiptinemar nú í upphafi annar, en við fengum tvær stúlkur til okkar frá Ítalíu sem dvöldu hér í viku hjá Ágústu Völu og Rebekku Rán en þær munu einmitt heimsækja Ítalíu á vorönn 2025. Eins eru hér tvær stúlkur, Poula og Theresa, frá Þýskalandi sem stunda nám við St. Bonaventura Gymnasium sem staðsettur er í Dillingen. Þær munu dvelja og stunda nám við VA í samtals 6 vikur og dvelja hjá íslenskum fjölskyldum staðsettum í Neskaupstað og Eskifirði.