Bjartur, Leifur og Þór í Mercantec skólanum
Í nokkur ár hefur VA tekið þátt í ýmsum erlendum samstarfsverkefnum með styrk í gegnum Erasmus+. Markmiðið með því er að undirbúa nemendur og starfsfólk fyrir alþjóðlegt umhverfi m.a. í gegnum náms- og starfsferðir erlendis og með móttöku erlenda nemenda og kennara en með því móti öðlast nemendurnir hæfni sem sífellt verður mikilvægari. Einnig er markmiðið að auka alþjóðlega vídd í skólastarfinu.
Undanfarin tvö ár hefur verið töluverð ládeyða yfir erlendu samstarfi vegna Covid-19 en nú var fyrsta nemendaferðin loks farin í þó nokkurn tíma. Vélstjórnarnemarnir Þór Elí Sigtryggsson, Bjartur Hólm Hafþórsson og Leifur Páll Guðmundsson héldu af stað í skiptinám í Mercantecskólann í Viborg í Danmörku í janúarbyrjun og dvöldu í 3 vikur. Þar stunduðu þeir nám í greinum sem tengjast vélstjórninni og kynnust þeir nýjum aðferðum og tækjum sem nýtist þeim beint í vélstjórnarnámið.
Í Danmörku bjuggu þeir á heimavist og kynntust þar dönsku heimavistarlífi. Einnig voru þeir duglegir að skoða umhverfið í frítíma sínum og nærliggjandi bæi. Þeir kynntust einnig storminum Malik sem hefur gengið yfir Evrópu að undanförnu. Það varð til þess að lestin sem átti að ferja þá til Kaupmannahafnar gekk ekki vegna þess að tré höfðu fallið á brautarteinana. Voru þá góð ráð dýr sem þeir leystu úr með því að taka bíl í staðinn sem skilaði þeim á leiðarenda.
Við heimkomuna í gær voru þeir afar ánægðir með dvölina og munu mæla með því við alla að taka þátt í verkefnum sem þessum. Skólinn var frábær og þeir lærðu að standa á eigin fótum í ókunnum aðstæðum. Þeir sköpuðu jafnframt minningar fyrir lífstíð.
Ferðin var hluti af verkefninu Efling starfsnáms við VA með erlendu samstarfi III. Hér má lesa nánar um það verkefni og önnur verkefni á sviði erlendra samskipta.