Lilja Jóhannesdóttir, verkefnastjóri Fab Lab Aust.
Fab Lab (Fabrication Laboratory) er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Hún gefur ungum sem
öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í
framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Það sem er svo heillandi
við þetta er að þú getur um að bil búið til hvað sem er og möguleikarnir eru óendanlegir,“ segir Lilja
Jóhannesdóttir, verkefnastjóri Fab Lab á Austurlandi.„Það er mikil umbylting að geta teiknað allt í tölvum. Til að
útskýra aðeins betur hvað þetta er, þá má líkja þessu við smíðastofurnar og rafmagnsverkstæðin
eins og við þekkjum þau, nema að í dag er allt gert í gegnum tölvu. Til dæmis þegar ég starfaði sem
smíðakennari og ætlaði til að mynda að gera sjónvarpsskáp, þurfti ég að teikna allt upp og það var gert með
blaði og blýanti. Í Fab Lab sest ég hinsvegar bara niður fyrir framan tölvu og teikna allt upp í „Google sketchup“ og set
svo efniviðinn í stóra fræsarann og fæ allt í réttum stærðum út,“ segir
Lilja.
Dáist að frumkvæði Verkamenntaskólans
Fab Lab á Íslandi er rekið af Nýsköpunarmiðstöð Íslands og eru nú þegar til staðar fjórar Fab Lab smiðjur;
í Vestmannaeyjum, á Sauðárkróki, Ísafirði og í Reykjavík. Verkmenntaskóli Austurlands er eigandi smiðjunnar Fab
Lab Austurland og átti frumkvæði að stofnun hennar en alls koma þrjár stofnanir að verkefninu á Austurlandi:
Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Verkmenntaskóli Austurlands og Austurbrú. Alls kostar verkefnið um 20 milljónir króna og
fjármagnar VA það auk styrkja frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð og fyrirtækjum á svæðinu.
„Þetta er ótrúlega flott framtak og er algerlega að frumvæði Elvars Jónssonar skólameistara. Hann kom til okkar kennara í
fyrra og viðraði við okkur þessar Fab Lab pælingar, fékk okkur í lið með sér og keyrði þetta á flug og lét
ekkert stoppa sig. Ég hreinlega dáist að frumkvæði Verkmenntaskólans.“
Ekki bara fyrir nemendur
Í starfsemi Fab Lab smiðjunnar verður sérstök áhersla lögð á að auka og efla áhuga ungmenna á
tæknimenntun sem og að virkja nýsköpunarkraft unga fólksins í samstarfi við skólana á svæðinu. Starfsemin
er þó ekki eingöngu ætluð nemendum því einstaklingar og frumkvöðlar geta einnig fengið aðstoð við hönnun
og framleiðslu í smiðjunni. „Það er í raun lykilatriði til þess að Fab lab megi í rauninni heita Fab Lab og standi undir
nafni, að stofan sé opin almenningi. Þess vegna verður boðið upp á námskeið í Fab Lab fyrir einstaklinga úr
atvinnulífinu og á vorönn 2015 verður boðið upp á áfanga í nýsköpun við Verkmenntaskólann í tengslum
við Fab Lab. Svo þegar Fab Lab smiðjan verður svo komin í fullan gang verður boðið upp á opnunartíma fyrir
almenning. ,Þetta er svo spennandi og við erum full eftirvæntingar fyrir þessu verkefni. Okkur finnst þetta ákveðin
tímamót í sögu skólans og við hlökkum til að sjá hvað þetta leiðir af sér,“ segir Lilja að
lokum.
Formleg opnun smiðjunnar verður á Tæknidegi fjölskyldunnar í Verkmenntaskólanum 8. nóvember.
Grein úr Austurglugganum frá því 12.sept. 2014 (34.tbl.-13.árg.)