Umhverfið er okkar allra!
Nemendur í vistfræði í Verkmenntaskóla Austurlands vilja leggja sitt af mörkum til að draga úr fatasóun og ætla að halda fatamarkað til að vekja athygli á endurnýtingu fatnaðar.
Öllum er velkomið að taka þátt, koma með föt, skipta á fötum og fá ódýr föt. Ágóði sem safnast rennur til Unicef, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna og er stefnt að því að safna fyrir vatnsdælu.
Í tengslum við Markaðinn verður fyrirlesturinn „Tvisvar í sömu fötunum – er það í lagi?“
þar sem Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur hjá Umhverfisráðgjöf Íslands heldur fyrirlestur um fatasóun. Þar er fjallað um þau umhverfisáhrif sem fataframleiðsla hefur í för með sér og endurnýtingu á textílvörum.
Fatamarkaðurinn verður í Verkmenntaskóla Austurlands miðvikudaginn 25. apríl klukkan 14:00 -17:00.
Ef þú vilt gefa föt á markaðinn er hægt að koma með þau í stofu 9 í Verkmenntaskóla Austurlands, þriðjudaginn 24. apríl kl. 10:00 - 12:00 eða koma með þau á markaðinn. Það sem ekki gengur út verður afhent Rauða krossinum.
Fyrirlestur Stefáns Gíslasonar verður sama dag klukkan 12:30 í stofu eitt og eru allir velkomnir!
