Nemendur í stærðfræðitíma í VA fengu frábæra heimsókn í morgun. Gestirnir komu frá Nesskóla en þar er þemavika í gangi. Nemendurnir sem komu eru á miðstigi grunnskólans og voru þeir að vinna í þemavikunni með forritun af ýmsum toga og leyfðu þeir VA nemendum að prófa.
Grunnskólakennararnir sem stóðu að baki krökkunum, þær Helga Ósk Snædal og Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, sögðu hugmyndina um heimsókn sem þessa hafa kviknað eftir að þær tóku þátt í Tæknidegi fjölskyldunnar fyrir hönd Nesskóla um síðustu helgi. Þar buðu þær stöllur, ásamt fleiri kennurum skólans, gestum Tæknidags að kynnast forritun með ýmsum tækjum og tólum og er óhætt að segja að framlag þeirra hafi slegið í gegn hjá gestum. Í þemavikunni hafa nemendur þeirra farið víða um bæinn að kynna tæknina, s.s. í leikskólanum og Breiðabliki. Alls staðar hafa þeir fengið frábærar móttökur.
Hér má sjá myndir og myndband frá heimsókninni sem segja meira en mörg orð.