Í gær var veðurblíðan nýtt til þess að halda í hina árlegu haustgöngu VA. Nemendur og starfsfólk gat valið um þrjár leiðir, í Drangaskarð, Hrafnakirkju eða Páskahelli. Sú hefð hefur skapast að göngurnar séu tileinkaðar ákveðnu málefni. Að þessu sinni var gangan tileinkuð baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Í tilefni af því söfnuðust nemendur og starfsfólk saman á hópmyndina sem má sjá hér til hliðar í upphafi göngu og sendu með henni sterk skilaboð.
Einnig hélt Guðmundur Arnar Guðmundsson kennari ávarp þar sem hann brýndi karlmenn til dáða í að snúa við þeirri klefamenningu sem hefur tíðkast. Hann benti á eftirfarandi: “Einn lítill “brandari„ er upphaf að gerendameðvirkni. Það að hlæja að rasískum bröndurum, hommabröndurum eða ljóskubrandörum er gerendameðvirki. Að taka undir með „dúddanum“ sem telur sig ráða búningsklefanum er gerendameðvirkni.” Svo sannarlega hægt að taka undir þessi orð. Að lokinni brýningu var haldið af stað. Göngurnar tóku mislangan tíma og þegar göngufólk sneri aftur biðu grillaðir hamborgarar og franskar í boði skólans. Allir voru glaðir, þreyttir og ánægðir með daginn.
Myndir úr göngunni má sjá hér fyrir neðan.