Séð frá Drangaskarði
Nemendur og starfsfólk Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað tóku þátt í heimsátaki í dag, þriðjudaginn 3.
sept 2013. Með þeim hætti mótmæltu þeir lögum sem nýlega voru samþykkt í Rússlandi. Lög þessi brjóta á
réttindum samkynhneigðra og banna t.d. að börn séu frædd um samkynhneigð. Þetta þýðir t.d. að samkynhneigðir mega ekki leiðast
eða kyssast opinberlega. Það má ekki bera tákn réttindabaráttu samkynhneigðra eða tala um réttindi fyrir samkynhneigt fólk.
Vetrarólympíuleikarnir verða í Sochi í Rússlandi á næsta ári. Mikil mótmæli hafa verið enda ganga þessi
nýju lög ekki bara gegn mannréttindasáttmálum sem að Rússland á aðild að, heldur líka ólympíusáttmálanum.
Þar stendur m.a. að hvers konar mismunum gegn íþróttamönnum sé bönnuð. Margir hafa áhyggjur af að lögunum verði beitt gegn
samkynhneigðum keppendum og áhorfendum.
Út um allan heim í dag eru haldnir fundir til að mótmæla þessum lögum í Rússlandi. Þetta er gert til að leggja pressu á
þjóðarleiðtoga að tjá sig um málið opinberlega. Um hundrað nemendur og starfsfólk Verkmenntaskóla Austurlands mótmæltu
með táknrænum hætti með því að tileinka haustgöngu skólans baráttu samkynhneigðra.
Haustganga Verkmenntaskóla Austurlands að þessu sinni var þrískipt og voru gengnar þrjár skemmtilegar gönguleiði í Norðfirði.
Einn hópur gekk út í Páskahelli, annar upp að Hrafnakirkju og sá þriðji alla leið á toppinn, upp Drangaskarð. Göngur sem
þessar hafa verið liður í skólastarfi í VA frá upphafi.