Haustganga VA var farin miðvikudaginn 30. september. Haustgangan er árlegur viðburður í VA og hefur verið fastur liður í skólastarfinu frá upphafi en þá er hinn venjulegi skóladagur brotinn upp og nemendur og starfsmenn gera sér glaðan dag saman á göngu.
Að þessu sinni voru tvær skemmtilegar gönguleiðir í boði. Farið var með rútum upp að skíðaskála þar sem íþróttaakademían sá um að koma mannskapnum í gang með léttri upphitun. Annar hópurinn gekk síðan eftir merktri leið upp á Svartafjall og hinn hópurinn gekk eftir vegslóðanum upp á Oddsskarð.
VA er þátttakandi í verkefninu heilsueflandi framhaldsskóli og var haustgangan í anda þess. Þema þess árs er næring og var hún höfð að leiðarljósi í gönguferðinni. Öllum nemendum og starfsmönnum var boðið upp á holla íslenska kjötsúpu á heimavistinni áður en lagt var af stað. Einnig var brýnt fyrir nemendum og starfsfólki skólans mikilvægi þess að hafa meðferðis hollt og næringarríkt nesti.
Veðrið var aðeins að stríða okkur en mjög hvasst var og kalt og þá sérstaklega á toppnum. Allt gekk þó mjög vel og komu nemendur og starfsfólk sáttir heim að loknum góðum degi.
Myndir