Heyra píptestin sögunni til?

Mynd: Gunnar Gunnarsson
Mynd: Gunnar Gunnarsson

Fátt er það sem nokkur sem neyðst hefur til að stunda skólaíþróttir leggur jafn mikla fæð á og þolprófin, svokölluð píptest. Nemendur í íþróttaakademíu Verkmenntaskóla Austurlands kynntu um síðustu helgi nýja tækni sem kann að koma í stað gömlu prófanna.

Í stað þess að þurfa að hlaupa enda á milli í íþróttahúsum og reyna að vera á undan pípinu er þol nú mælt með stökkmælingum.

Viðkomandi hoppar með þriggja sekúndna millibili í heila mínútu með belti um mittið sem tengt er við tölvu. Kine hefur þróað hugbúnað til að lesa úr gögnunum.

„Já, þetta virkar, „ segir Katrín Björg Pálsdóttir, einn nemendanna sem kynntu verkefnið á Tæknidegi fjölskyldunnar um síðustu helgi.

Þolprófið er samt ekki aðaltilgangur búnaðarins. Eins er hægt að mæla stökkraft sem er gert með stökum stökkum.

„Búnaðurinn nýtist aðallega ef þúi vilt kanna snerpuna og hversu hátt þú getur hoppað. Með því að mæla þig á nokkurra vikna fresti sérðu hvernig þú bætir þig með æfingum," sagði Patrekur Darri Ólafsson.

Þau eru bæði nemendur í akademíunni og hafa notað tæknina. „Já, við komum ágætlega út. Við erum bara nokkuð sátt."

http://www.austurfrett.is/sport/4005-heyra-piptestin-sogunni-til