Jólakvöld listaakademíu VA var haldið miðvikudagskvöldið 4. des og er nú orðin árleg hefð í skólastarfinu. Keppt var í ýmsum keppnum milli brauta í skólanum. Þar stóðu rafdeildin og húsasmíðin sig best og endaði rafdeildin sem deildarmeistari VA 2024. Húsasmíðin fylgdi fast á eftir og um tíma leit út fyrir að bráðbana þyrfti til að hægt væri að krýna sigurvegara. Sérstaklega stóð húsasmíðin sig vel í kappátinu en flestir þátttakendur voru af þeirri braut og sigurvegarinn líka. Sigurvegarar hverrar þrautar fengu spil í verðlaun. Þátttakendum og áhorfendum var boðið upp á veitingar og áttu notalega stund í jólalegu umhverfi í sal skólans.
Nemendur listaakademíunnar sáu um að skipuleggja viðburðinn. Það er ómetanlegt fyrir skólastarfið að hafa virka nemendur sem hugsa út fyrir kassann til að gera viðburði sem skemmtilegasta og fjölbreyttasta þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi yfir skólaárið. Listaakademía VA stendur einnig að hryllingshúsi á hrekkjavökunni sem opið er öllum bæjarbúum og fær alla jafna stórgóðar viðtökur auk þess sem þau setja upp sýningar á vorönn en s.l. vor settu þau upp frumsamið leikrit sem bar nafnið Hæfileikarnir undir leikstjórn Sigrúnar Sól Ólafsdóttur.
Hér að neðan fylgja nokkrar myndir frá kvöldinu.