Kærleiksdagar og Austfirsku ólympíuleikarnir

Kærleiksdagar VA voru haldnir 8-9 apríl. Síðustu ár hafa kærleiksdagarnir verið haldnir og árshátíð í beinu framhaldi en í ár varð breyting þar á þar sem árshátíðin fór fram í mars s.l.

Eins og áður er markmið Kærleiksdagana að brjóta upp hefðbundið skólastarf með ýmiskonar samveru og er það orðin hefð að byrja kærleiksdagana á samverustund í salnum þar sem nemendur og starfsfólk byrja dagana á hafragraut í boði skólans. Í ár skelltum við okkur í fjallaferð upp í Oddsskarð á þriðjudeginum þar sem nemendur og starfsfólk áttu góða stund saman í bongó blíðu og nutu þess að skíða saman, fara á bretti, spila borðspil í skíðaskálanum eða renna á gúmmíbát. 

Á miðvikudeginum var haldið til Egilsstaða þar sem VA tók þátt í Austfirsku Ólympíuleikunum ásamt ME og FAS. Austfirsku Ólympíuleikarnir voru árlegur viðburður lengi vel milli skólanna og voru endurvaktir árið 2019 eftir nokkurra ára pásu. Covid setti svo strik í reikninginn hvað varðar þennan viðburð en nú eru þeir vonandi komnir aftur til að vera enda einstaklega skemmtilegt að sameina skólana á degi sem þessum. Í ár sáu nemendafélög skólanna um skipulagið og stóð nemendum til boða að keppa í blaki, fótbolta, körfubolta og Kahoot. VA stóð sig vel og enduðu í 2. sæti eftir keppni í fyrrnefndum greinum en ME hreppti bikarinn í ár og stóðu uppi sem sigurvegarar Austfirsku Ólympíuleikanna. Í lok dags var nemendum boðið upp á dýrindis hamborgaraveislu í mötuneyti ME. Það má með sanni segja að dagurinn hafi lukkast vel og gaman að sameina skólana með viðburði eins og þessum en það voru ekki einungis nemendur sem nutu góðs af þessari samveru því kennarar skólanna höfðu val um að hitta aðra kennara á samráðsfundi þar sem m.a. var hægt að bera saman bækur sínar og hugmyndir í tilteknum áföngum.  Við þökkum ME og FAS fyrir frábæran dag og nemendafélögum skólanna fyrir vel skipulagðan viðburð.