Kærleiksdagar VA voru haldnir í annað sinn í vikunni og var undirliggjandi markmið að safna fé til kærleiksríks málefnis. Kusu nemendur að safna fé til að styðja við mikilvægt starf Pieta samtakanna. Söfnunarfé er nú komið í 150.000 krónur og enn er að tínast inn í gegnum Facebook áskorun Kærleiksdaga sem dreifist um netið á fleygiferð. Við hvetjum alla til að taka þessari verðugu áskorun enda ekki amalegt að sjá Facebook fyllast af kærleiksríkum myndum!
Á Kærleiksdögum vinnum með með kærleik á víðu samhengi. Við reynum að láta gott af okkur leiða, við eflum tengsl milli VA nemenda, við hugum að leiðum til að sýna okkur sjálfum og öðrum kærleik og víkka sjóndeildarhringinn því með aukinni þekkingu og víðsýni getum við dregið úr fordómum og aukið kærleik hvert til annars. Í ár var jafningjafræðsla um kærleik til umhverfisins, um hvernig það er að elska og vera ,,öðruvísi“. Fræðsla um COVID-19 var þarna með enda liður í kærleika til okkar sjálfra og annarra að bregðast við aðstæðum í dag af skynsemi og ábyrgð. Þjálfarar frá KVAN komu til okkar og unnu með sjálfstyrkingu með nemendum og við héldum Asparbingó sem var afar glæsilegt, þökk sé fyrirtækjum hér á Austurlandi. Við héldum Klink-torg með það að markmiði að safna klínki, skemmta okkur og öðrum og gera skólann okkar sýnilegri. Þar var hægt að skjóta í ,,snakkkörfu“, kaupa kaffi og kökur og hlusta á lifandi tónlist svo eitthvað sé nefnt. Loks var haldið í ferð sem endaði í Vök. Eins og fyrr lauk Kærleiksdögum með glæsilegri árshátíð VA. Frábærir dagar sem sannarlega eru komnir til að vera!