Kærleiksdagar VA voru haldnir í þriðja sinn í síðustu viku og var undirliggjandi markmið að safna fé til kærleiksríks málefnis ásamt því að nú var sérstök áhersla á umhverfið og sjálfbærni. Kusu nemendur að safna fé til að styðja við neyðarsöfnun Rauða krossins fyrir íbúa Úkraínu. Söfnunarfé var í dag komið í 175.000 krónur og var fénu safnað í gegnum Facebook áskorun Kærleiksdaga og Klinktorg. Var afraksturinn lagður inn á söfnunarreikning Rauða krossins og rennur þaðan inn í hjálparstarfið. Við þökkum öllum kærlega fyrir sem lögðu sitt á vogarskálarnir til stuðnings á málefninu.
Á Kærleiksdögum vinnum með með kærleik á víðu samhengi. Við reynum að láta gott af okkur leiða, við eflum tengsl milli nemenda VA, við hugum að leiðum til að sýna okkur sjálfum og öðrum kærleik og víkka sjóndeildarhringinn því með aukinni þekkingu og víðsýni getum við dregið úr fordómum og aukið kærleik hvert til annars. Í þetta sinn var einnig sérstök áhersla á umhverfið og sjálfbærni í gegnum Sprotasjóðsverkefnið Umhverfismál til framtíðar sem er í samstarfi við Nesskóla.
Í ár var m.a. fræðsluerindi frá NAUST, lesin sjálfbærnisaga og nemendur voru með erindi um hvernig við getum öll stigið skref í því að breyta hugsun okkar umhverfinu til góða. Nemendur sóttu ýmiskonar vinnustofur þar sem þeir unnu kærleiksríkar skreytingar og slagorð og fengu fræðslu um sjálfbærni og vistvænan akstur. Við héldum Klinktorg með það að markmiði að safna klínki, skemmta okkur og öðrum og gera skólann okkar sýnilegri. Þar var hægt að kaupa notaðar flíkur, bækur, spil og ýmislegt annað á klink, hlusta á lifandi tónlist, fá fléttur og skraut í hárið, spila spil, kaupa nýbakaðar vöfflur og kaffi hjá 9. bekk Nesskóla svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma var haldið Reddingarkaffi í verknámshúsinu en þar gátu gestir og gangandi komið með ýmis tæki og hluti sem þörfnuðust lagfæringar. Loks var haldið í óvissuferð þar sem nemendur sóttu m.a. Gámafélagið heim og skemmtu sér í ýmsum leikjum í Fjarðabyggðarhöllinni.
Eins og fyrr lauk Kærleiksdögum með glæsilegri árshátíð VA og þar fór einnig fram forkeppni fyrir söngkeppni framhaldsskólanna þar sem Aníta Sif Sigurbrandsdóttir bar sigur úr býtum og keppir fyrir hönd skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna á Húsavík þann 3. apríl næst komandi.
Frábærir og kærkomnir dagar sem sannarlega eru komnir til að vera!