Síðustu tvö ár hafa verið haldnir kærleiksdagar á vorönn þar sem unnið er með kærleik í víðu samhengi. Á þeirri vorönn sem fer nú senn að ljúka hefur kærleiksdögum ítrekað verið frestað vegna samkomutakmarkana og varð lendingin að kærleiksdagurinn yrði einn, föstudaginn 23. apríl sl. Þar var unnið með að efla tengsl milli nemenda þar sem þeir gátu valið sér fjölbreytt viðfangsefni í gegnum daginn.
Kærleiksdagurinn hófst með því að eftir fyrstu tvo áfangatímana, sem kenndir voru með hefðbundnu sniði, sá hópur nemenda um að baka vöfflur fyrir samnemendur og starfsfólk. Eftir vöffluátið gátu nemendur valið sér vinnustofur. Hægt var að fara í vinnustofu um gróskuhugarfar, glæða svartan vegg innan skólans lífi, æfa sig í pílukasti, spila FIFA, spila borðspil, fara í gong jóga, fara í sund, spila fótbolta, glápa eins og sápa á kvikmynd og síðan fór úrslitakeppni borðtennismóts fram en það var búið að standa alla vikuna.
Í hádeginu var öllum boðið upp á pizzaveislu og síðan var KærleikssVAr, spurningakeppni þar sem spurningarnar tengdust allar kærleik í víðum skilningi. Liðið sem sigraði keppnina var leyst út með veglegum vinningum.