Þriðjudaginn 8. nóvember næstkomandi verða forsetakosningar í Bandaríkjunum og stendur valið á milli þeirra Hillary Clinton frambjóðanda Demókrataflokksins og Donald Trump frambjóðanda Repúblikanaflokksins. Í tilefni þess ætlar Nemendafélag Verkmenntaskóla Austurlands að standa fyrir kosningavöku í stofu 1.
Hugmyndin með þessari kosningavöku er að auka áhuga nemenda á stjórnmálum. Fulltrúar í nemendafélaginu telja mikilvægt að allir fylgist með og kynni sér þessar kosningar því að sigurvegari þeirra tekur við valdamesta embætti heims en forseti Bandaríkjanna er oft sagður leiðtogi hins frjálsa heims.
Kosningavakan verður haldin í stofu 1 í VA og hefst hún kl. 22:00.
Elvar Jónsson skólameistari verður með erindi um bandarísk stjórnmál og Ágúst Ingi sagnfræðingur mun fjalla um sögu bandarískra forseta og forsetakosninga.
Við hvetjum alla áhugasama um að mæta, nemendur, starfsfólk og almenning.
Boðið verður upp á veitingar.