Kósýdagur og baráttan gegn einelti

7. nóvember síðastliðinn skipulögðu nemendur úr uppeldisfræði kósýdag fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Kveikt var á kertum, allir hvattir til að mæta í náttfötum eða öðrum kósýfötum í skólann og boðið var upp á heitt kakó og piparkökur. Þessi sami dagur var helgaður baráttunni gegn einelti í skólanum. Í tilefni dagsins voru nemendur og starfsmenn minntir á viðbragðsáætlun gegn einelti í skólanum og að allir beri ábyrgð á því að samfélagið okkar sé vinsamlegt, án eineltis og annars ofbeldis. Stjórn NIVA stóð fyrir hópknúsi nemenda í nemendaaðstöðu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Eftirfarandi er yfirlýsing starfsmanna og nemenda VA sem hangir uppi á göngum skólans og hefur einnig verið dreift rafrænt.

 

Við berum öll ábyrgð!

 

Við berum öll ábyrgð á því að samfélagið okkar sé vinsamlegt, án eineltis og annars ofbeldis.

 

Nokkur dæmi um það hverju við nemendur og starfsfólk VA berum ábyrgð á:

Góðum skólabrag og starfsanda þar sem samkennd, virðing og ábyrgð eru höfð að leiðarljósi

Vera vakandi fyrir líðan hvers annars

Efla félagsfærni okkar og hæfni til samstarfs í fjölbreyttu samfélagi

Vera góðar fyrirmyndir

Fylgja eineltisáætlunum og öðrum slíkum sem gerðar eru til að bæta líðan okkar og öryggi

Setja okkur í spor hvers annars og bera virðingu hvert fyrir öðru

Skilja ekki útundan og baktala ekki

Virða margbreytileikann og muna að enginn getur allt og allir geta eitthvað

Nota netmiðla á öruggan hátt og muna að sömu samskiptareglur eiga við þar

Hafa hugrekki til að standa með þeim sem eru beittir órétti

Láta vita þegar við teljum einhvern verða fyrir einelti eða öðru ofbeldi