Upplestur á frétt.
Þegar framhaldsskólum landsins var lokað frá og með 16. mars sl. var tekin sú ákvörðun að kenna í gegnum Bláa hnöttinn samkvæmt stundaskrá. Námsbrautir í rafiðn eru meðal þess sem fór í þann búning. Þuríður Ragnheiður Sigurjónsdóttir er einn af kennurum deildarinnar og hefur hún kennt alla sína áfanga í gegnum Bláa hnöttinn. Aðspurð segir Þuríður: „Það hefur verið talsverð áskorun og lærdómsríkt að koma sér upp heppilegu kerfi. Allir áfangar hvort sem er fagbóklegir eða verklegir hafa verið keyrðir og hafa verkleg verkefni nemenda þá breyst í þá veru að skoða híbýli sín og gera allskonar verkefni í kringum þau eða að öllu leiti farið í að vera hermanir og svo teikningar þ.s. útfærslur eru kynntar af afurðum hvers verkefnis.“
Þetta felur í sér að nemendur vinna afar fjölbreytt og mismunandi verkefni. Sem dæmi um verkefni sem nemendur hafa gert eru: raflagnir á heimilum nemenda og hermanir og teikningar af skynjurum ásamt teikningum af hugsanlegum hýsingum þeirra. Einnig hefur námið verið brotið upp með spurningakeppnum á Kahoot nemendum til mikillar gleði.
Kennarar skólans hafa flestir komið sér upp vinnuaðstöðu heimavið og segir Þuríður að í góðum tíma sé nauðsynlegt að vera með tölvu með tveim skjáum og svo spjaldtölvu til að teikna á fyrir nemendur. Því geti vinnuaðstaðan verið ansi þétt hlaðin tækjum og tólum þegar mest gengur á.
Á myndunum sem fylgja má sjá vinnuaðstöðu Þuríðar og frá kennslustundum.