Líf og fjör í erlendu samstarfi

Það hefur verið nóg um að vera hjá nemendum okkar í erlendu samstarfi síðastliðnar vikur með styrkjum frá Erasmus+ áætluninni.

Þann 23. Febrúar héldu 6 nemendur til Frakklands og dvöldu þar í 9 daga. Hópurinn flaug til Parísar þar sem þau dvöldu í einn sólahring og sáu brot af því besta sem París hefur upp á að bjóða í sól og blíðu fyrsta daginn áður en haldið var með lest til Dunkirk þar sem vikunni var varið í franska skólanum Lycée de I´Europe. Nemendur dvöldu hjá frönskum nemendum og fjölskyldum þeirra en sömu nemendur heimsóttu okkur í september 2024 eins og sjá má hér. Þarna voru á ferðinni Freyr Zoega, Brynjar Dan, Hafrún Katla, Eyvör Rán, Berglind Pála og Jóhanna Dagrún í fylgd með Jóhanni Tryggvasyni. 

Í heimsókninni tóku þau m.a. þátt í því að útbúa búninga fyrir stórt Karnival sem haldið er árlega í Dunkirk og þúsundir manna sækja. Stórt kjarnorkuver sem staðsett er í Dunkirk var skoðað en til að fá að fara þangað inn þurfti töluverðan undirbúning fyrir brottför, og miklar öryggisráðstafanir gerðar en mikil upplifun að skoða kjarnorkuverið. Hópurinn fór í heimsókn til Graveline sem er vinabær Fjarðabyggðar og fengu þar höfðinglegar móttökur í ráðhúsinu, einnig var farið í dagsferð yfir til Brugge í Belgíu. Nemendurnir hlýddu einnig á Annie Ardens sem sagði þeim frá sögum af fiskveiðum við Ísland og í lok vikunnar fylgdist hópurinn með Karnivalinu sem fram fór í bænum, en þar er áætlað að um 40.000 gestir klæði sig upp og ganga og syngja á götum bæjarins.

Heimsóknin til Frakklands tókst vel og má með sanni segja að nemendur okkar hafi farið heim með fullt af góðum minningum margs fróðari um Frakkland og franska menningu.

Í byrjun mars héldu þær Ágústa Vala Viðarsdóttir og Rebekka Rán Hjálmarsdóttir til Modena á Ítalíu þar sem þær dvöldu í viku hjá ítölskum nemendum og fjölskyldum þeirra og heimsóttu skólann Liceo Muratori San Carlo sem staðsettur er í Modena. Með þeim í för var Salóme Rut Harðardóttir sem kynntist kennslu í íþróttum og þýsku meðal ítalskra kennara.  Í ferðinni heimsóttu þær Ágústa Vala og Rebekka Rán m.a. Flórens og Bologna, fóru á listasöfn og skoðuðu kirkjur sem víða má finna en fyrsta daginn dvöldu þær í Mílanó þar sem þær báru hina frægu Dómkirkju augum. Aðspurðar sögðu Ágústa og Rebekka að ferðin hafi verið algjörlega frábær og að áhugavert hefði verið að heimsækja ítalska skólann og sjá hversu ólík skólakerfin milli landanna eru en það er einmitt stóra markmiðið með Erasmus+ samstarfinu að veita nemendum og starfsfólki tækifæri til þess að öðlast þekkingu á framandi og ólíkri menningu, átta sig á muninum á eigin skóla og öðrum skólum og spreyta sig í nýju landi og skerpa m.a. á tungumálakunnáttu sinni.

Hér að neðan fylgja nokkrar myndir frá heimsókninni til Frakklands.