Lokun skóla - mikilvægar upplýsingar

Ágætu nemendur og forráðamenn

Frá miðnætti á sunnudag er í gildi samkomubann og lokun framhaldsskóla og gildir sú lokun til 12. apríl.

Á meðan lokun skóla varir verða bóklegir og fagbóklegir áfangar í VA kenndir í vefumhverfi á rauntíma, þ.e. samkvæmt stundatöflu. Merkt verður við mætingu í tíma eins og venja er, í gegnum Innu.

Til að undirbúa þessar breytingar verður kennsla felld niður mánudaginn 16. mars og munu kennarar nota daginn til að undirbúa breytta kennsluhætti.  Þriðjudaginn 17. mars hefst svo kennsla samkvæmt stundaskrá í vefumhverfi sem aðgengilegt er nemendum efst á kennsluvef hvers áfanga - Fjarkennsla. Nemendur í rafiðndeild, málmiðndeild og húsasmíði geta þó átt von á nýrri stundaskrá á mánudag til að fylgja á meðan á lokun skólans varir. 

Fjarkennslukerfi

Kerfið sem notað verður til fjarkennslunnar hefur hér í VA fengið íslenska vinnuheitið Blái hnötturinn (Big Blue Button) og býður það upp á mikla möguleika til fjarkennslu í rauntíma. Hér má sjá kynningarmyndband fyrir nemendur. Flestir nemendur þekkja Bláa hnöttinn nú þegar þar sem áhersla hefur verið á að kenna öllum á kerfið í vikunni, fyrst kennurum og svo nemendum.  Frá þriðjudagsmorgni 17. mars verður hlekkur (Fjarkennsla) efst á kennsluvef bóklegra og fagbóklegra áfanga sem nemendur smella á þegar kennslustund hefst. Þá opnast kennslustund í rauntíma á netinu. Mikilvægt er að nemendur séu með heyrnatól með míkrófóni til að hljóðgæði kennslustunda verði með sem bestu móti.

Athugið að til að tengjast við þessa ,,veflægu kennslustofu” er hægt að nota hvort sem er tölvu, spjaldtölvu eða síma.

Áfangar sem þegar eru kenndir eingöngu í fjarnámi verða kenndir með samskonar fyrirkomulagi og verið hefur til þessa.

Heimavist

Heimavist skólans og mötuneyti verður lokað þann tíma sem lokun skólans varir. Nemendur sem þurfa að komast inn á heimavist og sækja þar eigur geta komið við á vistinni á morgun, laugardag, kl. 13 – 14. Vinsamlegast hafið samband við Karen aðstoðarskólameistara, í síma 847-7996, ef þið viljið nýta ykkur þetta.

Námsgögn sem eru í skólanum

Nemendur sem þurfa að komast inn í skólann og sækja þar námsgögn geta komið á morgun, laugardag, kl. 13 – 14. Vinsamlegast hafið samband við Lilju skólameistara, í síma 848-3607, ef þið viljið nýta ykkur þetta.

Mötuneyti

Svör varðandi mötuneytiskostnað munu liggja fyrir á mánudag og verða upplýsingar um það settar á heimasíðuna.

Námsráðgjafi – þjónusta á meðan lokun varir

Þjónusta náms- og starfsráðgjafa heldur áfram á meðan skólinn er lokaður enda mikilvægt að styðja við nemendur nú sem endranær.  

Munu viðtöl fara fram í gegnum Messenger. Stofnuð var ,,Like” síða á Facebook (síðan er í vinnslu) til að einfalda aðgengi nemenda að Messenger myndsímtölum í samskiptum við Guðnýju námsráðgjafa. Viðtöl verða bókuð í gegnum tölvupóst gudnybjorg@va.is eða á skrifstofu skólans í síma 4771620. Nemendur sem eiga föst viðtöl hjá Guðnýju halda sínum viðtalstímum og mun Guðný koma nánari upplýsingum áfram til þeirra nemenda.

Vinnustofur

Varðandi vinnustofurnar tvær – sem nemendur spurðu talsvert um í morgun – þá erum við að leita að lausn á að bjóða upp á þær í vefumhverfi. Lausnin verður kynnt hér á heimasíðunni og á samfélagsmiðlum skólans um leið og hún liggur fyrir.

Námsbrautir sem verða kenndar með ,,tvisti”

  • Á starfsbraut verða stærðfræði, vinnustofur, upplýsingatækni og málmsmíði felld niður. Umsjónarviðtöl munu fara fram í gegnum síma á tíma sem Auður skipuleggur með nemendum. Aðrir áfangar á brautinni verða kenndir í gegnum Bláa hnöttinn.
  • Í skoðun er útfærsla fyrir málm-, tré- og rafiðndeildir sem felst í því að kenna fagbóklega áfanga af meiri krafti á meðan lokað er og kenna verklega áfanga af meiri krafti þegar við opnum aftur. Nánari útfærsla á þessu verður birt eftir hádegi á mánudag. Stundatöflur þessara brauta verða því líklegast með breyttu fyrirkomulagi.
  • Í háriðndeild verða verklegir áfangar að hluta til fjarkenndir og hafa nemendur fengið upplýsingar um fyrirkomulagið og viðeigandi búnað með sér heim.

Fyrstu skrefin og tæknileg aðstoð

Þegar fyrirkomulagi kennslu og náms er kollvarpað með þessum hætti er alltaf viðbúið að núa þurfi af einhverja vankanta til að byrja með. Því vil ég biðja alla að sýna umburðarlyndi og þolinmæði á meðan við náum tökum á þessu breytta umhverfi. Ef tæknileg vandamál koma upp eru nemendur beðnir að setja sig í samband við kerfisstjóra VA, Viðar Guðmundsson, vidar@va.is. Mikilvægt er að reyna að líta á það sem framundan er sem verkefni sem við leysum í sameiningu því þannig eru okkur allir vegir færir.

Ef þið hafið einhverjar spurningar getið þið sent þær í tölvupósti á netfangið lilja@va.is eða haft samband við skrifstofu skólans á mánudaginn.

Ég óska ykkur góðrar helgar og hlakka til að sjá nemendum bregða fyrir á Bláa hnettinum á þriðjudagsmorgun.

Kveðja,

Skólameistari