Í vikunni hefur verið líf og fjör hjá okkur þar sem nemendur tóku þátt í lýðræðisviku sem lauk með skuggakosningum föstudaginn 22. nóvember. Markmið lýðræðisvikunnar er að efla lýðræðisvitund meðal framhaldsskólanema á Íslandi og eru kennarar m.a. hvattir til að leggja fyrir lýðræðistengd verkefni og stuðla að stjórnmálaumræðu meðal nemenda. Lýðræðisvikan endar á svokölluðum skuggakosningum og eru nemendur hvattir til að taka upplýsta ákvörðun áður en gengið er til atkvæðagreiðslu. Það er Landssamband ungmennafélaga í samstarfi við Samband íslenskra framhaldsskólanema sem standa fyrir lýðræðisátakinu #égkýs og inn á vefnum www.egkys.is má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um lýðræðisvikuna, skuggakosningarnar og helstu áherslumál framboðsflokka kosninganna.
Nemendafélagið stóð fyrir lýðræðisbingói í hádegishléi á þriðjudag og í vinnustofum síðar þann dag komu nemendur saman í salnum og völdu sér málefni til að undirbúa spurningar fyrir framboðsfund vikunnar. Undirbúningsfundurinn gekk vel og skiptu nemendur á milli sín umræðum í tengslum við húsnæðismál, heilbrigðismál, mannréttindamál, menntamál, efnahagsmál, alþjóðasamskipti og evrópusambandið, menningu og listir, loftslagsmál, samgöngumál, jafnréttismál, atvinnumál, náttúruverndarmál og málefnum ungs fólks.
Á miðvikudag fengum við góða heimsókn frá framboðsflokkum Norðausturkjördæmis. Til okkar mættu sjö flokkar af þeim tíu sem fengu boð um að koma og fengu forsvarsmenn flokkanna 2 mínútur í framsögu áður en nemendur fengu tækifæri til að spyrja spurninga. Það má með sanni segja að fundurinn hafi tekist vel og vakið lukku meðal nemenda.
Föstudagurinn endaði svo á skuggakosningum þar sem allir nemendur fæddir eftir september 2003 höfðu atkvæðisrétt. Kjörnefnd var skipuð í skólanum en í kjörnefnd sátu Pálmi Kristjánsson, Ágústa Vala Viðarsdóttir, Tómas Elí Vilhelmsson og Helena Kristjánsdóttir auk Þorvarðar Sigurbjörnssonar sem fulltrúa kennara.