Petra kennari að nýta tæknina
Upplestur á frétt.
Í áfanganum Leiðtogahæfni, sjálfsþekking og framtíðin hefur fjarkennslan markað sín spor á efnistökin. Kennslustund sem fór fram nýlega lýsti Petra Lind kennari svona: "Svo eyddum við tíma í að lesa okkur til um fjórðu iðnbyltinguna og ræða hlutverk mannfólksins og hvort vélarnar gætu tekið yfir allt. Þar var skilað pælingum í afurð að eigin vali og þar birtist þetta stórkostlega ljóð."
Ljóðið á sérstaklega vel við á þeim tímum tæknilausna sem við búum við.
Störf framtíðar
Það er erfitt að segja til um
hvað framtíðin ber í skauti sér
Enda hefði verið ómögulegt
fyrir áratugum síðan
að segja til um hver staðan yrði í dag
Aftur á móti er hægt
að geta sér til um gang framtíðar
geta í eyðurnar
út frá fenginni reynslu
því sem sagan hefur kennt okkur
Á þessari tækni öld
sem gjarnan er kölluð
fjórða iðnbyltingin
eru ýmis störf á undanhaldi
Skjáir - tölvur - vélar
koma í staðin fyrir fólk
fólk úr holdi og blóði
með mannlegar tilfinningar
sem gera mannleg mistök
Vélarnar geta verið hagstæðari
fyrir atvinnurekandann
þegar til langs tíma er litið
vél krefst ekki hærri launa
vél er ekki heima með veikt barn
vél er ekki með vesen
En vél er heldur ekki með tilfinningar
vél getur ekki skapað
vél getur ekki átt í samræðum
ekki þýðingarmiklum samræðum
Vélar geta ekki aðstoðað
þá sem eiga bágt
þær geta ekki verið til staðar
vélar geta hvorki skapað
hamingju né sorg
í gegnum list
líkt og mannfólkið er fært um að gera
Því er ljóst að við
mannfólkið
munum alltaf þarfnast annarra manna
maður er manns gaman
Steinunn Dagmar Björgvinsdóttir