Byggðarsafnið á Dalvík var heimsótt
Föstudaginn sl. lögðu 38 nemendur úr Verkmenntaskólanum af stað í menningarferð ásamt fararstjórn. Var ferðinni heitið norður
í land n.t.t. til Fjallabyggðar og Akureyrar. Markmið ferðarinnar var að kynnast nemendum Menntaskólans á Tröllaskaga sem staðsettur er á
Ólafsfirði og nýta þá eiginleika sem Akureyri hefur upp á að bjóða í skemmtun og leik.
Marian hinn ágæti bílstjóri ferðarinnar renndi með hersinguna í
hlað á Ólafsfirði um kvöldmatarleyti og þar beið hópsins pizzuhlaðborð og fulltrúi nemendafélags Menntaskólans á
Tröllaskaga ásamt kennara. Saddir og sælir komu Austfirðingar sér fyrir í skólanum sem er til húsa í gamla gagnfræðiskólanum
í bænum. Skólinn er ungur að árum, en hann var stofnaður 2011 og eru nemendur um 200. Eftir að hafa komið sér fyrir gerðu nemendur sig
klára, voru allir speglar nýttir við málningu og túperingu í anda 9. áratugsins, því nú skyldi halda á ball á
Siglufirði. Ballið á Siglufirði var haldið á Allanum sem einu sinni hét Bíó Café. Ballið átti lítið skylt við 9.
áratuginn, plötusnúðurinn ruglaðist í ríminu og spilaði tónlist sem verður væntanlega vinsæl um 2080. Allt fór
þó vel fram og allir komust aftur í gegnum Héðinsfjarðargöng til svefnstaðar okkar.
Laugardagurinn hófst með upprúllun á svefnpokum og pylsum í
veitingaskálanum gegnt skólanum. Á leiðinni til Akureyrar var Dalvík heimsótt þar sem ferðalangarnir skoluðu af sér rykið í
sundlaug bæjarins og heimsóttu byggðarsafnið þar sem Jóhanni Svarfdælingi er gert hátt undir höfði. Vöktu munir úr eigu
Jóhanns risa athygli hópsins auk örlaga hans að vinna sem sýningardýr í Danmörku og Bandaríkjunum.
Þegar komið var til Akureyrar um miðjan dag á laugardeginum var fyrsta verk að
koma okkur fyrir á Backpackers, sem er farfuglaheimili og kaffihús staðsett við göngugötu þeirra Akureyringa. Eftir það spókaði unga
fólkið sig á Akureyri áður haldið var á skauta og í keilu. Þar sýndu menn listir sínar, en þess má geta að
farastjórnin hafði mikla yfirburði í keiluspilinu. Um kvöldið var haldið á veitingastaðinn Bryggjuna og borðað lambakjöt og
kjúklingur sem fór vel ofan í mannskapinn svo ekki sé talað um eftirréttinn. Síðar um kvöldið fóru flestir í
bíó, eftir kvikmyndasýningar mældu sumir götur bæjarins en aðrir lögðust snemma til hvílu.
Á leiðinni heim á sunnudeginum var komið við í Jarðböðunum
við Mývatn og lét hópurinn þreytuna líða úr sér í náttúrulegu laug þeirra Þingeyinga.
Þess má geta að nemendur voru til fyrirmyndar í ferðinni og virtu allir sem
einn þær reglur sem fyrir þá höfðu verið settar. Öll ungmennin blésu í áfengismæli bæði kvöldin sem staðfesti
að ferðin var með öllu áfengislaus.
Fararstjórnin.