Föstudaginn 4. nóvember lögðu nemendur VA af stað ásamt farastjórum í hina árlegu menningaferð. Hluti hópsins tók daginn snemma eða um fjögur aðfaranótt föstudagsins og fóru á háskólakynningu á Akureyri. Eins og síðustu ár var ferðinni heitið norður á bóginn. Að þessu sinni héldu nemendur til Skagafjarðar á föstudeginum og Akureyrar á laugardeginum.
Hersingin kom til Sauðárkróks um sexleytið og við tók dýrindis pizzahlaðborð á Hótel Mælifelli. Eftir það var haldið í íþróttahúsið á Króknum þar sem nemendur VA og FNV öttu kappi í íþróttum. Höfðu Norðlendingar betur í körfunni en Austfirðingar í blakinu. Báðir skólar sýndu mikil og glæsileg tilþrif, þar að auki sáust taktar sem ekki munu sjást aftur. Hópurinn lagðist því sáttur og þreyttur til hvílu á föstudagskvöldið í Húsi frítímans sem er félagsmiðstöð Sauðkrækinga.
Á laugardagsmorgun ók hinn hundtryggi bílstjóri ferðarinnar Jakob Vigfússon hópnum til Akureyrar þar sem fyrsti viðkomustaður var Jólahúsið. Þar eru jól allt árið og ekki skemmdi það fyrir staðarhöldurum að nemendur voru í jólaskapi þegar þeir komu. Deginum var síðan varið á Akureyri við margvíslega menningarlega iðju. Margir fóru á skauta, aðrir lásu bækur hjá Vesturferða agentinum Eymundsson og sumir gengu um götur og stræti bæjarins þar sem þeir virtu fyrir sér funksjónisma og módernisma þeirra bygginga sem prýða Akureyri.
Borðað var á Bautanum um kvöldið þar sem ítölsk matargerð var á boðstólum, eftir kvöldverðinn var frjáls tími sem var nýttur í bíóferðir, gönguferðir og spilamennsku þar sem fararstjórarnir höfðu töluverða yfirburði.
Á heimleiðinni var komið við í Jarðböðunum í Mývatnssveit þar sem ferðalangarnir svömluðu í náttúrubaði Þingeyinga. Það voru því sáttir og sælir ferðalangar sem komu til síns heima seinni part sunnudagsins eftir vel heppnaða menningaferð.
Þess má geta að nemendur VA voru sjálfum sér og skólanum til fyrirmyndar í ferðinni, en eins og undanfarin ár var sá háttur var hafður á að allir í ferðinni blésu í áfengismæli fyrir svefnin bæði kvöldin sem staðfesti að ferðin var vímuefnalaus með öllu.
Fararstjórar