Milljaður rís

Fjöldi fólks kom saman í íþróttahúsinu í Neskaupstað í hádeginu í dag og steig trylltan dans til að mótmæla ofbeldi gegn konum. Tilefnið er átak á vegum UN Women sem kallað hefur verið „Milljaður rís“. Það er Verkmenntaskóli Austurlands sem hefur frumkvæðið af viðburðinum í samstarfi við Nesskóla og allir bæjarbúar voru hvattir til þátttöku. Þetta er í þriðja sinn sem VA tekur þátt í þessu átaki og hefur það vaxið frá því að nemendur og kennarar dönsuðu saman í matsal heimavistarinnar í risapartý í íþróttahúsinu. Ágúst Ingi Ágústsson kennari við VA flutti þrumuræðu þar sem hann hvatti viðstadda til hrista heiminn til umhugsunar og verka til að stöðva ofbeldi gegn konum.

Í ár er átakið tileinkað konum á flótta. Um þessar mundir eru rúmlega milljón konur heimilislausir flóttamenn sem flúið hafa átökin í Sýrlandi. Þessar konur eru oft varnarlausar á flótta sínum og því miður er til vont fólk í heiminum sem nýtir sér varnarleysi þeirra. Konur og stúlkur á flótta eiga á stöðugri hættu á að vera beittar ofbeldi, kynferðislegri misnotkun og mansali. Þetta kemur öllum við og við verðum að finna leið til að stöðva ofbeldið.

Það var kannski ekki milljarður sem reis upp og dansaði í Neskaupstað í dag en við erum klárlega hluti af milljarði og leggjum okkar lóð á þessar vogarskálar.