Bakaranemar úr MK sáu um veitingarnar
Mikið var um dýrðir í hátíðarsal IÐNÓ, mánudaginn 2. desember, þegar IÐNÚ útgáfa fagnaði 70 ára afmæli sínu. Þar voru saman komnir boðsgestir úr ýmsum áttum sem eiga það sameiginlegt að hafa komið að starfsemi IÐNÚ með einum eða öðrum hætti í gegnum tíðina. Upphaf námsbókaútgáfunnar má rekja til frumkvöðla iðnskólanna sem komu saman árið 1948 og settu á fót Samband iðnskóla á Íslandi, forvera IÐNMENNTAR. Ári síðar var Iðnskólaútgáfan stofnuð, nú IÐNÚ útgáfa, og að henni standa í dag 13 iðn-, tækni- og verkmenntaskólar víðs vegar um landið.
Dagskrá afmælisfagnaðarins samanstóð af nokkrum fræðandi og skemmtilegum erindum auk tónlistaratriða. Kór Kvennaskólans í Reykjavík söng jólalög og Már Gunnarsson, tónlistarmaður ogafreksíþróttamaður, lék frumsamin lög á píanó og söng við mikinn fögnuð viðstaddra. Veislugestum gafst svo færi á að bragða á dýrindis veitingum sem bakaranemar frá Menntaskólanum í Kópavogi reiddu fram.
Yfirskrift erinda var mikilvægi þess að vel sé staðið að útgáfu á ritrýndu námsefni fyrir fagfólk framtíðar. Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans stýrði dagskrá. Fyrstur tók til máls Ársæll Guðmundsson, stjórnarformaður IÐNMENNTAR og skólameistari Borgarholtsskóla. Hann fór yfir 70 ára sögu IÐNÚ og þær breytingar sem skólasamfélagið stendur frammi fyrir í dag. Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri IÐNÚ útgáfu, ávarpaði næst samkomuna og varpaði ljósi á núverandi starfsemi IÐNÚ auk þess sem hann kynnti gagnvirkar vefbækur fyrir gestum. Ásgeir Þór Tómasson, fagstjóri í bakaraiðn, sagði frá tilurð Bakarabókarinnar, sem er viðamesta kennsluefni fyrir bakaraiðn sem komið hefur út á íslensku og IÐNÚ gefur út sem vefbók. Marín Björg Jónasdóttir, sviðsstjóri iðn- og starfsnáms í Borgarholtsskóla, flutti því næst stutt erindi um hvernig námsefni hefur áhrif á gæði iðn- og starfsnáms. Að lokum fræddi Vilhjálmur Hilmarsson frá Samtökum iðnaðarins gesti um hve mikil þörf er á fólki með iðn-, tækni- og starfsmenntun og lagði áherslu á að ábyrgð menntakerfisins hafi ef til vill aldrei verið meiri ef íslenskt samfélag á að standast samanburð við önnur lönd.
Starfsmenntun er og hefur ávallt verið einn af hornsteinum íslensks velferðarsamfélags og útgáfa á vönduðu námsefni er þar mikilvægur hlekkur. 70 ára saga IÐNÚ varpar ljósi á ólíkar leiðir sem hafa verið farnar í þeim tilgangi að efla og styrkja menntun í iðn-, tækni- og verknámsgreinum. Það er von IÐNÚ að með öflugum tengslum og samstarfi við skólana verði námsefnisútgáfa markviss og framtíð útgáfunnar gjöful fyrir skólasamfélagið og fagfólk framtíðarinnar.